24. október 2012

Rannsóknir á slysum - Bréf

Umboðsmaður barna sendi fyrir nokkru bréf til innanríkisráðherra þar sem hann vekur athygli á mikilvægi skráningar og rannsókna þegar kemur að slysum á börnum.

Umboðsmaður barna sendi fyrir nokkru bréf til innanríkisráðherra þar sem hann vekur athygli á mikilvægi skráningar og rannsókna þegar kemur að slysum á börnum.

Bréfið er svohljóðandi:

Innanríkisráðuneytið
b.t. Ögmundar Jónassonar
Sölvhólsgötu 7
150 Reykjavík

Reykjavík, 27. september 2012

Efni: Rannsóknir á slysum

Á yfirstandandi þingi hefur innanríkisráðherra lagt fram frumvarp til laga um rannsókn samgönguslysa. Af því tilefni vill umboðsmaður barna koma eftirfarandi á framfæri.

Á hverju ári berast umboðsmanni barna fjöldi ábendinga og fyrirspurna varðandi slys á börnum og slysavarnir og snertir þessi málaflokkur í raun öll svið samfélagsins. Þegar slys á barni á sér stað er mikilvægt að ákveðið ferli fari í gang til þess að hægt sé að koma í veg fyrir frekari slys, læra af þeim og eftir atvikum gera breytingar á aðbúnaði og verklagi. Svo virðist sem skráning slysa, þ.m.t. orsök slyss og afleiðingar, séu ekki í nægilega góðum farvegi. Embætti umboðsmanns barna hafa borist ábendingar um að meiðsli í íþróttum séu oft skráð sem slys þegar útlit er fyrir að ofbeldi eða of mikið álag hafi í raun valdið meiðslunum. Það sama á við þegar börn t.d. klemma sig alvarlega, falla úr hæð niður á gólf/jörð eða hljóta brunasár. Slíkt gerist oft vegna vanþekkingar þeirra sem gæta barnanna og ætti því í einhverjum tilfellum að vera hægt að koma í veg fyrir slíkt með fræðslu og aðgát.

Þar sem innanríkisráðherra hefur lagt fram fyrrgreint frumvarp til laga um rannsókn samgönguslysa vekur umboðsmaður barna athygli á ofangreindum atriðum sem snerta slys á börnum. Umboðsmaður telur það vel við hæfi að innanríkisráðherra bregðist við þessum ábendingum og tryggi að slys sem börn verða fyrir verði rannsökuð með viðeigandi hætti. Þannig mætti fækka slysum á börnum, skapa þeim öruggari uppvaxtarskilyrði og tryggja þeim þá vernd sem velferð þeirra krefst.

Ef nánari upplýsinga er óskað er velkomið að hafa samband í síma 552 8999 eða senda tölvupóst á netfangið ub@barn.is.

Virðingarfyllst,

____________________________
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica