2. febrúar 2012

Rannsókn á gerð áætlana um meðferð máls í barnaverndarstarfi

Rannsóknastofnun í barna- og fjölskylduvernd við Háskóla Íslands (RBF) hefur gefið út rit um rannsókn á gerð áætlana um meðferð máls í barnavernd. Ritið heitir "Það kemur alveg nýtt look á fólk" Rannsókn á gerð áætlana um meðferð máls í barnaverndarstarfi og er eftir Anni Haugen.

Rannsóknastofnun í barna- og fjölskylduvernd við Háskóla Íslands (RBF) hefur gefið út rit um rannsókn á gerð áætlana um meðferð máls í barnavernd. Ritið heitir "Það kemur alveg nýtt look á fólk" Rannsókn á gerð áætlana um meðferð máls í barnaverndarstarfi og er eftir Anni Haugen.

Útdráttur ritsins er svohljóðandi:

Að lokinni könnun barnaverndarmáls ber að gera áætlun um það á hvern hátt unnið skuli að því að bæta aðstæður barnsins, þar sem meðal annars kemur fram hverjir munu veita barninu stuðning. Í þessari rannsókn, sem framkvæmd var á árunum 2008–2011 var skoðað hvort og á hvern hátt börn og foreldrar koma að gerð slíkrar áætlunar. Skoðaðar voru 50 áætlanir frá fimm barnaverndarnefndum, rætt var við fimm barnaverndarstarfsmenn og síðan við 11 börn og 10 foreldra. Á þennan hátt var reynt að sjá hvort þátttaka barna og foreldra endurspeglaðist í áætlunum og um leið var leitast við að varpa ljósi á hugmyndir og upplifun starfsmanna, barna og foreldra af því að búa til áætlun.

Niðurstöður benda til þess að áætlun um meðferð máls nýtist ekki sem tæki til þess að efla samstarf við börn og foreldra við lausn máls. Starfsmenn vilja í orði kveðnu fá börn og foreldra með sér í samvinnu, en hvorki  þau börn né þeir foreldrar, sem rætt var við í rannsókninni, höfðu tekið þátt í slíkri samstarfsvinnu. Þekking barna og foreldra á störfum barnaverndarnefnda er óljós og takmörkuð áður en afskipti hefjast og vitneskja þeirra lítil á þeim úrræðum sem í boði eru. Þátttaka barna er að mestu bundin við eldri börn en börn yngri en 12 ára taka sjaldan þátt í því að búa til áætlun. Mæður eru helstu samstarfsaðilar barnaverndarstarfsmanna en feður taka sjaldan þátt í samstarfinu, og það sama gildir um aðra sem sinna málefnum barnanna eins og t.d. starfsmenn skóla. Barnaverndarstarfsmennirnir segjast yfirleitt vilja nota meiri tíma til að virkja börn og foreldra til að búa til áætlanir og þeir sakna markvissra mælitækja til að meta árangur af þeim stuðningi sem veittur er. Niðurstöður benda til þess að þörf sé á endurskoðun starfsaðferða við gerð áætlana sem stuðli að aukinni áherslu á barnasjónarhornið, samstarf og valdeflingu.

Hægt er að skoða ritið í heild hér.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica