30. október 2017

Ráðgjafarhópur umboðsmanns barna hittir landlækni

Síðastliðinn föstudag funduðu fulltrúar frá ráðgjafarhóp umboðsmanns barna með Birgi Jakobssyni landlækni, auk annarra starfsmanna frá embætti landlæknis.

Síðastliðinn föstudag funduðu fulltrúar frá ráðgjafarhóp umboðsmanns barna með Birgi Jakobssyni landlækni, auk annarra starfsmanna frá embætti landlæknis.

Á fundinum voru til umræðu ákveðin málefni er varða börn og ungmenni í sambandi við heilbrigðismál. Má þar nefna kynfræðslu barna og ungmenna í skólum og að þörf sé á að færa frekari kennslu í yngri bekki. Þá var tekin umræða um réttindi barns til að leita til læknis án aðkomu foreldra, og nefndi ráðgjafarhópurinn það sérstaklega að 15 ára aldur sé lágmarksaldur til að stunda kynlíf en sjálfræði í heilbrigðiskerfinu sé við 16 ára aldur. Að mati ráðgjafarhópsins vekur þetta upp þær spurningar um það hvernig því sé háttað ef 15 ára einstaklingur vill fara í skoðun til að greina kynsjúkdóma og mögulega mætti rekja fjölgun tilfella hjá unglingum og ungmennum til þessa. Hópurinn gerði auk þess athugasemd við opnunartíma Húð og kyn og benti á að flest ungmenni væru í skóla á þessum tíma og þyrftu oft að gera grein fyrir ferðum sínum ef sleppa á tíma.

Ráðgjafarhópurinn lagði einnig áherslu á mikilvægi þess að ungmennum, á aldrinum 16-18 ára sé kynnt það að heilbrigðismenn beri ekki tilkynningarskyldu til foreldra nema við viss tilfelli. Þá bar einnig á góma ólíkir starfshættir hjúkrunarfræðinga í grunn- og framhaldsskólum.

Að lokum lagði hópurinn fram þá tillögu að ungmenni eigi að hafa rétt til þess að ákveða hvort þeir verði líffæragjafi eða ekki. En í núverandi heilbrigðiskerfi er miðað við að 18 ára aldur sé skilyrði til þess að skrá sig sem líffæragjafi.

Fundurinn var bæði fróðlegur og gagnlegur fyrir alla aðila og bauð ráðgjafarhópurinn fram krafta sína þegar unnið er að málefnum barna og ungmenna. Ráðgjafarhópur umboðsmanns barna vonar að landlæknir leiti  eftir sjónarmiðum barna og ungmenna áður en teknar eru ákvarðanir um heilbrigðismál sem viðkemur börnum enda er það réttur þeirra að tjá sig um mál sem varðar þau sjálf.

 

Rub Og Landlaeknir


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica