13. október 2023

Ráðgjafarhópur sendir ráðherra bréf

Ráðgjafarhópur umboðsmanns barna sendi bréf til mennta- og barnamálaráðherra vegna fræðslu um málefni jaðarsettra hópa. 

Bréfið má lesa hér í heild sinni. 

Frá ráðgjafarhóp umboðsmanns barna til mennta- og barnamálaráðherra

Sæll Ásmundur

Á barnaþingi 2022 kom það mjög skýrt fram að börnum á Íslandi finnst vera mikil þörf á fræðslu um málefni jaðarsettra hópa.

Það skiptir miklu máli að til þess að koma í veg fyrir fáfræði, sem síðar leiðir að fordómum, sé góð fræðsla til staðar. Við teljum fræðslu afar mikilvæga og þarfa í nútímasamfélaginu sem við búum í.

Við viljum að tekið sé mið af skoðunum jaðarsettra hópa og þau sem hafa þekkingu og eru sérfræðingar í þeim málefnum hverju sinni sjái um fræðsluna.

Svona fræðsla getur reynst nokkuð viðkvæm og því þarf að koma rétt að henni.

Oft á tíðum þegar þessi fræðsla er yfir höfuð til staðar er það í höndum kennara að sjá um hana í stað fólks sem hefur reynslu og þekkingu á þessu sviði.

Fræðslan þarf að vera í takt við tíðarandann hverju sinni og vera breytileg eftir því sem er að gerast í samfélaginu.

Við viljum því að ríkisstjórn setji aukið fé sem er eyrnamerkt í að kaupa fræðslu frá fagaðilum fyrir alla skóla á landinu.

Einnig hvetjum við til þess að aukið fé sé sett í að efla endurmenntun kennara og þeir gerðir meðvitaðir um hvernig best sé að hátta fræðslu um jaðarsetta hópa.

Bestu kveðjur,

Ráðgjafahópur umboðsmanns barna




Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica