7. september 2011

Öryggi á leiksvæðum barna

Umboðsmaður barna, Margrét María Sigurðardóttir, hefur sent Svandísi Svavarsdóttur umhverfisráðherra bréf þar sem hún lýsir áhyggjum sínum yfir stöðu öryggismála á leiksvæðum barna.

Umboðsmaður barna, Margrét María Sigurðardóttir, hefur sent Svandísi Svavarsdóttur umhverfisráðherra bréf þar sem hún lýsir áhyggjum sínum yfir stöðu öryggismála á leiksvæðum barna.

Bréfið er svohljóðandi:

Umhverfisráðuneytið
b.t. Svandísar Svavarsdóttur
Skuggasundi 1
150 Reykjavík

Reykjavík, 1. september 2011
UB: 1109/10.1.3

Efni: Öryggi á leiksvæðum barna

Vísað er til fundar sem umboðsmaður barna, Margrét María Sigurðardóttir, og Herdís Storgaard verkefnisstjóra Árvekni áttu með ráðherra 17. ágúst sl. og þeirra gagna um slysagildrur á leikskólalóðum á leikskólum Reykjavíkur sem lögð voru fram á fundinum.

Á fundinum lýsti umboðsmaður m.a. áhyggjum sínum yfir ástandi öryggismála á leiksvæðum barna, sérstaklega á leikskólalóðum. Ljóst er að flest sveitarfélög fara ekki eftir reglugerð nr. 942/2002 um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim þegar kemur að eftirliti með öryggi leiksvæðanna. Samkvæmt 12. gr. reglugerðarinnar og viðauka III við hana eiga rekstraraðilar, sem oftast eru sveitarfélög, að fá fagaðila til að framkvæma aðalskoðun árlega auk þess sem framkvæma á rekstrarskoðun á 1-3 mánaða fresti. Þessu er í flestum tilfellum ekki sinnt þrátt fyrir ábendingar heilbrigðiseftirlitsins. Umboðsmaður barna hefur verulegar áhyggjur af stöðu þessara mála enda er brýnt að vernda yngstu börnin sérstaklega þegar kemur að leikumhverfi þeirra. Þá er mikilvægt að foreldrum og starfsfólki leikskólanna séu kynntar gildandi reglur og hvernig hægt sé að fá upplýsingar um ástand öryggismála á leikskólum landsins.

Umboðsmaður vonar að tekið verði á þessum málum sem fyrst þannig að börnum verði tryggð sú vernd sem velferð þeirra krefst.

Virðingarfyllst,
 
________________________________
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica