14. maí 2012

Um vinnu barna og unglinga

Um vinnu barna og unglinga gildir X. kafli laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerð nr. 426/1999 um vinnu barna og unglinga.

Máltækið segir að vinnan göfgi manninn og vissulega er jákvætt að börn og unglingar fái tækifæri til þess að kynnast og taka þátt í atvinnulífinu. Sú reynsla sem þau öðlast þar getur reynst góður undirbúningur fyrir frekari þátttöku á almennum vinnumarkaði síðar meir. Hins vegar þarf að gæta sérstaklega að því að þau valdi starfinu, það sé í samræmi við aldur þeirra, líkamlega getu og þroska og þau beri ekki of mikla ábyrgð.

Reglur um vinnu barna og unglinga
Um vinnu barna og unglinga gildir X. kafli laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerð nr. 426/1999 um vinnu barna og unglinga. Lögin gilda þó ekki um tilfallandi vinnu eða vinnu sem varir skamman tíma inni á einkaheimilum eða í fjölskyldufyrirtækjum sem hvorki telst skaðleg né hættuleg ungmennum. Tilgangur laganna er tvíþættur, annars vegar er þeim ætlað að koma í veg fyrir að börn eða unglingar gegni störfum sem reynst geta þeim hættuleg andlega sem líkamlega eða komi niður á menntun þeirra og þroska en hins vegar er þeim ætlað að ýta undir skynsamlega atvinnuþátttöku með því að gefa þeim kost á að stunda vinnu sem er í samræmi við líkamlegan og andlegan þroska þeirra.

Í lögunum er ungmennum yngri en 18 ára skipt upp í tvo hópa, annars vegar börn yngri en 15 ára sem enn eru í skyldunámi og hins vegar unglinga sem náð hafa 15 ára aldri en eru undir 18 ára aldri og ekki lengur í skyldunámi.

Vinna barna yngri en 15 ára
Almenna reglan er sú að börn í skyldunámi má ekki ráða til vinnu. Víkja má frá því í eftirfarandi tilvikum:

  • Börn má ráða til þátttöku í menningar- eða listviðburðum og íþrótta- eða auglýsingastarfsemi. Sá sem ræður börn sem ekki hafa náð 13 ára aldri skal afla leyfis frá Vinnueftirliti ríkisins áður en til ráðningar kemur.
  • Börn sem eru 14 ára eða eldri má ráða til vinnu sem er hluti af fræðilegu eða verklegu námsfyrirkomulagi.
  • Börn sem náð hafa 14 ára aldri má ráða til léttari starfa og börn sem náð hafa 13 ára aldri má ráða til léttari starfa í takmarkaðan stundafjölda, svo sem léttari garðyrkju- og þjónustustörf eða önnur hliðstæð störf.

Í IV. viðauka reglugerðar nr. 426/1999 er listi yfir störf af léttara taginu sem 13 ára og eldri mega vinna. Meðal þeirra er vinna í skólagörðum undir umsjón kennara, létt skrifstofustörf, létt fiskvinnslustörf án véla, sala dagblaða, létt verslunarstörf en þó ekki við afgreiðslukassa. Í reglugerðinni er tekið fram að ekki sé um tæmandi talningu á störfum að ræða og er það Vinnueftirlitsins að meta hvort starf sé sambærilegt við ofangreinda lýsingu þegar sótt er um leyfi fyrir starfi sem ekki er á listanum.

Vinna unglinga 15–17 ára
Unglinga er almennt heimilt að ráða til vinnu nema um sé að ræða störf við eftirfarandi aðstæður:

  • Vinnu sem líklega er ofvaxin líkamlegu eða andlegu atgervi þeirra.
  • Vinnu sem líklega veldur varanlegu heilsutjóni.
  • Vinnu þar sem hætta er á skaðlegri geislun.
  • Vinnu þar sem fyrir hendi er slysahætta sem gera má ráð fyrir að börn og unglingar geti átti í erfiðleikum með að átta sig á eða forðast vegna andvaraleysis eða skorts á reynslu eða þjálfun.
  • Vinnu sem felur í sér hættu fyrir heilsu þeirra vegna óvenjumikils kulda, hita, hávaða eða titrings.
  • Vinnu þar sem hætta er á ofbeldi eða annarri sérstakri hættu, nema ungmennin starfi með fullorðnum.

Vinnutími
Í lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980 er fjallað um vinnutíma barna og unglinga og eru settar ákveðnar takmarkanir á hann. Takmarkanir miðast við virkan vinnutíma eða vinnustundir að frádregnum neysluhléum. Takmarkanir eru eftirfarandi:

Almennar reglur
um vinnutíma

Börn 13–14 ára

Börn 15 ára í skyldunámi

Unglingar 15–17 ára

Á starfstíma skóla

2 klst. á dag
12 klst. á viku

2 klst. á dag
12 klst. á viku

8 klst. á dag
40 klst. á viku

Utan starfstíma skóla

7 klst. á dag
35 klst. á viku

8 klst. á dag
40 klst. á viku

8 klst. á dag
40 klst. á viku

Vinna bönnuð

kl. 20-6

kl. 20-6

kl. 22-6

Hvíld

14 klst. á sólarhr.
2 dagar í viku

14 klst. á sólarhr.
2 dagar í viku

12 klst. á sólarhr.
2 dagar í viku

Vinnueftirlitið hefur eftirlit með ofangreindum lögum og tekur á móti ábendingum um hugsanleg brot á þeim.

Nánari upplýsingar um vinnu barna og ungmenna er að finna á vefsíðu Vinnueftirlitsins.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica