29. nóvember 2019

Ráðgjafar umboðsmannsins í fjölbreyttu hlutverki á barnaþingi

Ráðgjafarhópur umboðsmanns barna tók virkan þátt í barnaþingi og sinnti meðal annars hlutverki fréttamanna, skipuleggjenda og hátíðarstjóra á þinginu. Ráðgjafarhópurinn hefur verið hluti af starfsemi umboðsmanns barna í 10 ár og er vettvangur þar sem ungt fólk kemur saman til þess að koma skoðunum sínum á framfæri. Hópurinn skapar börnum tækifæri til þess að hafa áhrif á málefni sem skipta þau máli í samfélaginu.

Störfin í ráðgjafarhópnum eru jafn mismunandi og þau eru mörg. Það sem tengir þau fyrst og fremst saman er áherslan á réttindi barna og barnasáttmálann. Ráðgjafarhópurinn hittist mánaðarlega á fundum og fylgist vel með starfsemi embættisins. Fyrir barnaþingið fundaði ráðgjafarhópurinn reglulega og skipti sér niður á hin ýmsu verkefni fyrir þingið. Þá tóku ráðgjafar virkan þátt í samráðshópi barnaþings, þar sem saman komu aðilar frá ýmsum félagasamtökum og stofnunum. 

Fréttafólkið úr ráðgjafarhópnum tók myndir, viðtöl við þátttakendur og hélt umræðunni gangandi á samfélagsmiðlum umboðsmanns barna og UngRúv. Hátíðarstjórarnir leiddu dagskrána fyrri daginn og kynntu ráðherrana, Forseta Íslands og Steinda Jr. á svið. Varpað var upp barnamyndum af gestum á sviðinu og fengu ráðgjafarnir tækifæri til þess að spyrja þá nánar út í þeirra upplifun af bernskunni. Fyrri ráðgjafar umboðsmannsins tóku einnig virkan þátt á þinginu og voru skipulagsteymi innan handar við þau fjölbreyttu verkefni sem þurfti að sinna.

Næst á dagskrá hjá ráðgjafarhópnum er kærkomið jólafrí en gera má ráð fyrir því að hópurinn komi ötullega aftur til starfa  í janúar.


Nánari umfjöllun á Rúv um fréttamennina okkar má nálgast hér.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica