2. júní 2014

Framkoma í starfi með börnum

Sem betur fer eru flestir þeir sem vinna með börnum góðar fyrirmyndir, sinna starfi sínu vel og hafa hagsmuni barnanna að leiðarljósi. Þó eru því miður of mörg dæmi um að fullorðnir einstaklingar komi illa fram við börn og niðurlægi þau jafnvel fyrir framan aðra.

Góð samskipti og uppbyggjandi viðbrögð við agabrotum eru nauðsynleg í öllu starfi með börnum. Gagnkvæm virðing milli allra aðila einkennir gott skóla- og frístundastarf. Sem betur fer eru flestir þeir sem vinna með börnum góðar fyrirmyndir, sinna starfi sínu vel og hafa hagsmuni barnanna að leiðarljósi. Þó eru því miður of mörg dæmi um að fullorðnir einstaklingar komi illa fram við börn og niðurlægi þau jafnvel fyrir framan aðra. Slík framkoma er er með öllu óviðunandi og brýtur gegn réttindum barna.

Brot úr skilaboðum barna til umboðsmanns barna

Einn kennarinn í skólanum er mjög dónalegur við alla krakkana , segir t.d. að við séum aumingjar segir okkur að halda kjafti og gefur okkur puttann og kemur með mjög grófa brandara og særir marga... Svo hlægja bara hinir kennararnir :S er þetta einelti ? er þetta ekki rangt??

Ég held að einn kennarinn í skólanum sé eitthvað á móti mér...hún [er] alltaf að skamma mig og niðurlægja mig fyrir framan allan bekkinn. Það er naumast að ég hætti í skólanum útaf henni.

Ég hef orðið fyrir líkamlegu og andlegu ofbeldi af bæði kennurum og nemendum... get ég kært kennarann minn [...] fyrir það að hlusta ekki á mig og að ég var lamin af krökkunum og það var ekkert gert og hún í rauninni tók bara þátt í eineltinu.. hvað get ég gert mig vantar ráð.

Skólastjórinn er dónalegur við nemendur og hótar þeim.

Í ensku þá er gamall kennari sem er alltaf að seigja ég sé heimskur og þroskaheftur og er alltaf að seigja það ef maður talar.

Það er húsvörður í skólanum sem er ofbeldisfullur. Hann tekur á öllu með þvílíku valdi. Hann tekur bara alltaf nokkra einstaklinga í skólanum fyrir og þar af meðal mig.

Þjálfarinn leggur mig í einelti. Ég er hætt að mæta á æfingar.

Vernd gegn ofbeldi

Það telst ofbeldi þegar fullorðinn einstaklingur kemur illa fram við barn, t.d. með stríðni, látbragði, hótunum eða niðrandi ummælum. Þegar slíkt ofbeldi er síendurtekið er um einelti að ræða. Börn eiga rétt á vernd gegn hvers kyns ofbeldi og annars konar vanvirðandi háttsemi, sbr. meðal annars 19. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, 1. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og 1. gr. barnalaga nr. 76/2003.

Ábyrgð hinna fullorðnu

Hvers kyns ofbeldi og önnur vanvirðandi framkoma gagnvart börnum getur haft langvarandi og skaðleg áhrif á sjálfsmynd og líðan barna. Er því mikilvægt að ábendingar um slíka háttsemi gegn börnum séu teknar alvarlega. Á það ekki síst við þegar gerandinn er fullorðinn einstaklingur sem hefur það hlutverk að gæta að hagsmunum barnsins, svo sem kennari eða þjálfari. Við slíkar aðstæður er barn sett undir yfirburðarstöðu viðkomandi aðila og ríkir því valdamisvægi í samskiptum þeirra. Fullorðnir einstaklingar þurfa því að gæta sérstakrar nærgætni og lipurðar í framkomu sinni gagnvart börnum, eins og meðal annars er sérstaklega tekið fram í 12. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008. Þá ber þeim ávallt að hafa það sem er börnum fyrir bestu að leiðarljósi í störfum sínum. Reglur um ábyrgð, réttindi og skyldur starfsfólks og nemenda í grunnskólum er að finna í reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum nr. 1040/2011. Þá er að finna góðar reglur og viðmið í ýmsum siðareglum, t.d. siðareglum kennara  og siðareglum Æskulýðsvettvangsins.

Börn eiga að njóta vafans

Í 3. gr. Barnasáttmálans kemur fram að það sem barni er fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir sem varða börn. Í samræmi við það telur umboðsmaður að börn eigi að njóta vafans þegar deilt er um það hvort einelti eða önnur vanvirðandi háttsemi hafi átt sér stað. Umboðsmaður barna telur því brýnt að hlustað sé á börn og þau ávallt tekin alvarlega þegar þau segja frá því að einhver fullorðinn hafi komið illa fram við þau, hvort sem það er í skólum, frístundum eða á öðrum vettvangi. Þá er mikilvægt að brugðist sé við í samræmi við hagsmuni barnsins.

Kennslumat

Börn sem hafa leitað til umboðsmanns barna kvarta yfir því að þau séu ekki tekin alvarlega þegar þau segja frá slæmri framkomu kennara eða annars starfsfólks. Til dæmis kvarta þau yfir því að sömu aðilarnir komi ítrekað illa fram við nemendur án þess að brugðist sé við. Þau börn sem skipa ráðgjafarhóp umboðsmanns barna hafa bent á mikilvægi þess að nemendur fái frekari tækifæri til að tjá sig um framkomu kennara og annars starfsfólk skóla, án þess að hætta sé á því að það bitni með neikvæðum hætti á þeim sjálfum. Hafa þau til dæmis komið með þá hugmynd að mat á kennurum og öðru starfsfólki verði reglulega lagt fyrir nemendur í öllum grunnskólum. Þá gæti skólinn brugðist við ef ítrekað er kvartað undan sama starfsfólkinu, t.d. vegna eineltis eða annars konar slæmrar framkomu. Slíkt mat gæti líka verið góð leið til að koma jákvæðum athugasemdum á framfæri því vissulega eru flestir þeir sem vinna með börnum að leggja sig fram við að reynast þeim sem best.

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica