28. ágúst 2014

Norrænn fundur á Grænlandi

Markmið fundarins var að heyra hvað hin norrænu embætti hafa verið að fást við undanfarið ár og miðla þekkingu og upplýsingum um nýjungar og verkefni sem miða að aukinni vernd, þátttöku og jafnræði barna.

Norænn Fundur Á Grænlandi Ágúst 2014Umboðsmenn barna á Norðurlöndum héldu sinn árlega fund síðustu helgi. Fundurinn var haldinn í Ilulissat á Grænlandi en embætti talsmanns barna var stofnað á Grænlandi árið 2012. Markmið fundarins var að heyra hvað hin norrænu embætti hafa verið að fást við undanfarið ár og miðla þekkingu og upplýsingum um nýjungar og verkefni sem miða að aukinni vernd, þátttöku og jafnræði barna.

Þrátt fyrir að margt sé líkt með þeim áskorunum sem þarf að takast á við er þó sá munur á Norðurlöndunum að á Íslandi, í Noregi og Finnlandi er búið að lögfesta Barnasáttmálann. Í Svíþjóð og Danmörku hefur það ekki verið gert.

Á heimsvísu eru Norðurlöndin í fararbroddi þegar kemur að réttindum barna. Þó er ennþá töluvert langt í land til að ná markmiðinu um samfélag þar sem öll börn njóta réttinda sinna til verndar, umönnunar og þátttöku til fulls. Það mun krefjast áframhaldandi vinnu við að vekja athygli á hagsmunamálum þeirra.

„Mikið var rætt um það hvernig hægt er að ná til og tryggja réttindi allra barna, sérstaklega þeirra sem búa við félagslega erfiðar aðstæður, eru með fötlun eða búa á strjálbýlum svæðum. Þessi börn eiga rétt á þjónustu og aðstoð í samræmi við það sem er þeim fyrir bestu. Þetta er viðfangsefni sem allar Norðurlandaþjóðirnar eru að velta fyrir sér hvernig best er að leysa” segir Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna.

Þessir árlegu norrænu fundir hafa reynst ákaflega mikilvægir í starfi embættanna en starf umboðsmanns barna er þess eðlis að hann verður að vinna að mestu óháð öðrum stofnunum samfélagsins. Það er því mikils um vert að geta með þessum hætti haft samráð við aðra sem vinna við sömu eða svipaðar aðstæður.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica