3. mars 2011

Niðurskurður sem bitnar á börnum

Umboðsmaður barna sendi í gær, 2. mars 2011, bréf til allra sveitarfélaga þar sem hann lýsir áhyggjum sínum af niðurskurði og minnir á skyldu þeirra til að setja hagsmuni barna ofar hagsmunum annarra í samfélaginu.

Umboðsmaður barna sendi í gær, 2. mars 2011, bréf til allra sveitarfélaga sem stílað er á sveitarstjóra og sveitarstjórnarmenn. Í bréfinu lýsir umboðsmaður barna yfir áhyggjum sínum af þeim niðurskurði sem hefur átt sér stað og er fyrirhugaður hjá sveitarfélögum landsins, ekki síst í leik- og grunnskólum og tómstundastarfi. Í bréfinu segir:

Í ljósi þess efnahagsástands sem ríkt hefur hér á landi á undanförnum árum er ljóst að sveitarfélög þurfa að endurskipuleggja starfsemi sína og hagræða eins og hægt er. Við alla forgangsröðun er hins vegar mikilvægt að hafa í huga að börn eru viðkvæmur þjóðfélagshópur sem á rétt á sérstakri vernd og þjónustu, eins og meðal annars kemur fram í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar. Til þess að minna á þetta sjónarmið sendi umboðsmaður barna í janúar 2010 áskorun til allra sveitarfélaga landsins þar sem þau voru hvött til að leita annarra leiða við niðurskurð áður en þjónusta við börn væri skert með einum eða öðrum hætti og benti í því sambandi á 3. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem felur í sér að það sem er barni fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir sem varða börn.

Ljóst er að niðurskurður undanfarinna ára hefur nú þegar bitnað umtalsvert á börnum. Hætt er að frekari niðurskurður hafi í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir velferð barna og aukinn kostnað fyrir sveitarfélög þegar til lengri tíma er litið, eins og reynsla nágrannaþjóða okkar hefur meðal annars sýnt.

Með þessu bréfi vill umboðsmaður barna ítreka fyrri áskorun sína til sveitarfélaga að hlífa börnum við niðurskurði og benda á að gæta þarf sérstakrar varkárni þegar tekin er ákvörðun um að skerða réttindi sem þegar er búið að veita. Nefnd Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi hefur bent á að efnahagsstaða ríkis ein og sér dugar ekki til að réttlæta skerðingu á slíkum réttindum. Þannig þarf að leita annarra leiða við niðurskurð áður en þessi réttindi eru skert. Þar að auki er nauðsynlegt að þeir sem ákvörðun bitnar á séu hafðir með í undirbúningi hennar. Allar ákvarðanir sem hafa áhrif á daglegt líf barna ætti því að bera undir þau sjálf eða fulltrúa þeirra. Í því sambandi má benda á 12. gr. Barnasáttmálans sem kveður á um rétt barna til að segja skoðun sína og hafa áhrif á ákvarðanir sem varða þau með einum eða öðrum hætti. Þá er að sjálfsögðu nauðsynlegt að jafnræðis sé gætt í hvívetna.

Umboðsmaður vonar að sveitarstjórnir hlutist til um að tryggja mannréttindi barna og hafi ávallt samráð við þau þegar taka á ákvarðanir sem varða velferð þeirra.

Fyrri aðgerðir umboðsmanns barna
Umboðsmaður barna fundaði með borgarstjóra í febrúar þar sem hann kom nokkrum ábendingum um niðurskurð á framfæri. Umboðsmaður átti einnig samráðsfund með umboðsmanni skuldara í byrjun árs þar sem ræddar voru leiðir til að aðstoða barnafjölskyldur í fjárhagsvanda. Auk þess hefur umboðsmaður vakið athygli á málinu á fundum með ráðherrum, bréfum og öðrum skrifum:

• Hér er að finna bréf sem umboðsmaður barna sendi öllum sveitarfélögum í byrjun árs 2010.
• Hér er að finna bréf sem umboðsmaður barna sendi til allra þingmanna í október 2010.
• Hér er að finna bréf sem umboðsmaður barna sendi til fjárlaganefndar í október 2010.
• Hér er að finna grein þar sem umboðsmaður barna vekur athygli á nauðsyn þess að tryggja velferð barna. Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. mars 2009.
• Hér er skýrsla umboðsmanns barna til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna, en sú nefnd hefur eftirlit með framkvæmd íslenska ríkisins á Barnasáttmálanum. Í skýrslunni, sem kom út í desember 2010, gagnrýnir umboðsmaður harðlega þá skerðingu sem hefur átt sér stað á þjónustu við börn.

Auk þess hefur umboðsmaður barna átt sæti í starfshópum sem vakið hafa athygli á áhrifum niðurskurðar á velferð barna, s.s. barnahópi Velferðarvaktarinnar og Náum áttum.

Umboðsmaður fagnar öflugum viðbrögðum foreldra, foreldrafélaga og annarra við niðurskurðaráformum og telur þau skipta miklu máli við að þrýsta á að dregið verði úr niðurskurði í skólakerfinu og í tómstundastarfi.

Umboðsmaður barna mun halda áfram að fylgjast með og vekja athygli stjórnvalda á skyldu þeirra að setja hagsmuni barna ofar hagsmunum annarra í samfélaginu.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica