22. mars 2011

Niðurskurður í skólum - Bréf til sveitarfélaga

Umboðsmaður barna hefur verulegar áhyggjur af áhrifum fyrirhugaðs niðurskurðar í leik- og grunnskólum landsins. Umboðsmaður sendi því í gær, 21. mars 2011, bréf til sveitarstjóra, sveitarstjórnarmanna og nefndarmanna í skólanefnd eða þeim nefndum sveitarfélagaganna sem tekur ákvarðanir um skólamál.

Umboðsmaður barna hefur verulegar áhyggjur af áhrifum fyrirhugaðs niðurskurðar í leik- og grunnskólum landsins á börn. Umboðsmaður sendi því í gær, 21. mars 2011, bréf til sveitarstjóra, sveitarstjórnarmanna og nefndarmanna í skólanefnd eða þeim nefndum sveitarfélaganna sem tekur ákvarðanir um skólamál. Bréfið er svohljóðandi: 

Til sveitarstjóra, sveitarstjórnarmanna og nefndarmanna í skólanefndum


Reykjavík, 21. mars 2011

Efni: Niðurskurður í skólum

Þann 2. mars sl. sendi umboðsmaður barna bréf til allra sveitarstjóra og sveitarstjórnarmanna í landinu. Í bréfinu lýsir hann yfir áhyggjum sínum yfir þeim niðurskurði sem hefur átt sér stað og er fyrirhugaður í sveitarfélögum landsins, sjá nánar hér.

Nú vill umboðsmaður sérstaklega beina sjónum að skólamálum og þeim breytingum sem standa fyrir dyrum á því sviði.

Umboðsmaður barna gerir sér grein fyrir þeim vanda sem sveitarfélög standa nú frammi fyrir og er því eðlilegt að þau endurskipuleggi starfsemi sína að einhverju leyti og hagræði eins og hægt er. Hins vegar vill umboðsmaður barna enn og aftur minna á þá skyldu sveitarfélaga að hafa ávallt það sem er börnum fyrir bestu að leiðarljósi við ákvarðanir sínar og taka tillit til sjónarmiða barna við allar ákvarðanir sem varða þau, sbr. 3. og 12. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Umboðsmanni er kunnugt um að í einhverjum sveitarfélögum hafi mjög faglega verið staðið að hagræðingu og samráð haft við nemendur, fagfólk og foreldra. Umboðsmaður fagnar slíkum vinnubrögðum og vonar að fleiri sveitarfélög taki þau sér til fyrirmyndar.

Breytingar á sviði leik- og grunnskóla skipta miklu máli fyrir daglegt líf barna á Íslandi. Þessar stofnanir er mikilvæg kjölfesta í lífi barna og eru í einstakri stöðu til að jafna það félagslega misrétti sem börn búa óneitanlega við. Er því sérstaklega mikilvægt að ákvarðanir um slíkar breytingar séu vel grundaðar með hliðsjón af hagsmunum barna. Brýnt er að meta hvaða áhrif breytingarnar muni hafa á líf barna og taka tillit til sjónarmiða allra þeirra sem hafa hagsmuna að gæta, sérstaklega barna. Umboðsmaður barna gagnrýnir því harðlega þegar ákvarðanir eru teknar án nægilegs samráðs við nemendur, foreldra, starfsmenn og annað fagfólk. Þegar ákvarðanir eru teknar án þess að tekið sé nægjanlegt tillit til sjónarmiða hagsmunaaðila er líklegt að það valdi óánægju innan skólasamfélagsins og hafi neikvæð áhrif á skólabrag. Óöryggi og vanlíðan nemenda og aukið álag á starfsfólk eykur líkurnar á því að erfitt reynist að bregðast við þeim vandamálum sem fylgja breytingunum og að einelti fái að þrífast.

Mikilvægt er að meta sérstaklega hvaða áhrif ákvarðanir um hagræðingu munu hafa þegar til lengri tíma er litið. Reynsla nágrannaþjóða okkur hefur sýnt að niðurskurður í menntakerfinu getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér, ekki síst fyrir þá sem standa að einhverju leyti höllum fæti. Verður því að huga sérstaklega að stöðu þeirra barna sem eru með sérþarfir eða eru illa stödd félagslega. Umboðsmanni er kunnugt um ákvarðanir um sameiningar og annars konar hagræðingu í sveitarfélögum sem virðist bitna sérstaklega illa á börnum af erlendum uppruna og börnum sem standa höllum fæti félagslega. Umboðsmaður barna gagnrýnir slíkar ákvarðanir harðlega og telur mikilvægt að sveitarfélög velti fyrir sér afleiðingum þeirra fyrir börnin sem niðurskurðurinn bitnar á. Umboðsmaður dregur verulega í efa að niðurskurður í skólakerfinu verði til hagræðingar fyrir sveitarfélög til lengri tíma litið, þar sem skert þjónusta í skólum er líkleg til þess að leiða til alvarlegri námserfiðleika nemenda, félagslegra vandamála og fleiri barnaverndarmála. 

Umboðsmaður barna tekur undir þá gagnrýni sem fram hefur komið á undanförnum vikum um að ákvarðanir um sameiningar skóla og aðrar aðgerðir til hagræðingar í ákveðnum sveitarfélögum hafi verið teknar án þess að  gerðar hafi verið fullnægjandi úttektir á faglegum grundvelli. Mikilvægt er að ákvarðanir séu teknar af vel ígrunduðu máli og ávallt þannig að tryggt sé að nægileg fagþekking verði enn til staðar í leik- og grunnskólum landsins. Sérfræðiþekking og nægjanlegur fjöldi starfsfólks eru ekki síst mikilvæg til þess að skóli án aðgreiningar geti verið raunhæft markmið,  sérstaklega þegar val barna með sérþarfir milli þess að fara í sérskóla og almenna grunnskóla hefur verið takmarkað.

Umboðsmaður barna skorar á sveitarfélög að endurskoða tillögur um niðurskurð og hagræðingu í skólakerfinu og hafa í huga að hagsmunir barna eiga ávallt að ganga framar fjárhagslegum hagsmunum sveitarfélaga.

Virðingarfyllst,
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna

Fyrri aðgerðir umboðsmanns barna
Umboðsmaður barna fundaði með borgarstjóra í febrúar þar sem hann kom nokkrum ábendingum um niðurskurð á framfæri. Umboðsmaður átti einnig samráðsfund með umboðsmanni skuldara í byrjun árs þar sem ræddar voru leiðir til að aðstoða barnafjölskyldur í fjárhagsvanda. Auk þess hefur umboðsmaður vakið athygli á málinu á fundum með ráðherrum, bréfum og öðrum skrifum:

Hér er að finna bréf sem umboðsmaður barna sendi sveitarstjórum og sveitarstjórnarmönnum 2. mars 2011 
• Hér er að finna bréf sem umboðsmaður barna sendi til allra þingmanna í október 2010.
• Hér er að finna bréf sem umboðsmaður barna sendi til fjárlaganefndar í október 2010.
Hér er að finna bréf sem umboðsmaður barna sendi öllum sveitarfélögum í byrjun árs 2010.
• Hér er að finna grein þar sem umboðsmaður barna vekur athygli á nauðsyn þess að tryggja velferð barna. Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. mars 2009.
• Hér er skýrsla umboðsmanns barna til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna, en sú nefnd hefur eftirlit með framkvæmd íslenska ríkisins á Barnasáttmálanum. Í skýrslunni, sem kom út í desember 2010, gagnrýnir umboðsmaður harðlega þá skerðingu sem hefur átt sér stað á þjónustu við börn.

Auk þess hefur umboðsmaður barna átt sæti í starfshópum sem vakið hafa athygli á áhrifum niðurskurðar á velferð barna, s.s. barnahópi Velferðarvaktarinnar og Náum áttum.

Umboðsmaður fagnar öflugum viðbrögðum foreldra, foreldrafélaga og annarra við niðurskurðaráformum og telur þau skipta miklu máli við að þrýsta á að dregið verði úr niðurskurði í skólakerfinu og í tómstundastarfi.

Umboðsmaður barna mun halda áfram að fylgjast með og vekja athygli stjórnvalda á skyldu þeirra að setja hagsmuni barna ofar hagsmunum annarra í samfélaginu.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica