28. janúar 2011

Niðurskurður í leik- og grunnskólum landsins

Umboðsmanni barna hafa borist þó nokkrar ábendingar um niðurskurð í leik- og grunnskólum landsins. Dæmi um niðurskurð sem þegar hefur átt sér stað er fækkun í starfsliði, sameining bekkja og niðurfelling námskeiða.

Umboðsmanni barna hafa borist þó nokkrar ábendingar um niðurskurð í leik- og grunnskólum landsins. Dæmi um niðurskurð sem þegar hefur átt sér stað er fækkun í starfsliði, sameining bekkja og niðurfelling námskeiða. Einnig hefur komið til skoðunar að fækka kennsludögum í grunnskólum og sameina leikskóla, grunnskóla og frístundaheimili. Sú skerðing sem hefur orðið í leik- og grunnskólum er mismunandi milli sveitarfélaga þar sem þessi málefni eru í þeirra höndum.

Mikilvægt er að reynt verði að koma í veg fyrir það að þær þrengingar sem eiga sér stað í efnahagslífinu hafi áhrif á daglegt líf barna. Skólar skipta gríðarlega miklu máli fyrir börn og sérstaklega á tímum sem þessum. Reynsla nágrannaþjóða hefur sýnt að niðurskurður í skólakerfinu hefur neikvæðar afleiðingar til lengri tíma litið.

Umboðsmaður barna hefur bent á mikilvægi þess að mennta- og menningarmálaráðuneytið fylgist náið með að öll lögbundin þjónustu sé tryggð í leik- og grunnskólum en dæmi eru um að slík þjónusta hafi verið skert. Í könnun sem mennta- og menningarmálaráðuneytið gerði kom í ljós að 30% grunnskóla á landinu eru án námsráðgjafa. Í lögum um grunnskóla nr. 91/2008 er kveðið á um að nemendur eigi rétt á að njóta náms- og starfsráðgjafar hjá aðilum sem uppfylla skilyrði laga um náms- og starfsráðgjöf. Er því ljóst að hluti skóla er ekki að veita börnum þá lögbundnu þjónustu sem þau eiga rétt á og þeim því mismunað eftir búsetu.

Fjallað er um niðurskurð sem bitnar á börnum í skýrslu umboðsmanns barna til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna. Skýrslan verður birt í næstu viku.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica