4. febrúar 2016

Niðurskurður bitni ekki á börnum - bréf til sveitarfélaga

Umboðsmaður barna hefur verulegar áhyggjur af því hvaða áhrif niðurskurður sveitarfélaga hefur á börn og þeirra velferð. Umboðsmaður sendi því bréf í dag til til sveitarstjóra, sveitarstjórnarmanna og nefndamanna í skólanefndum eða þeim nefndum sveitarfélaganna sem sinna skólamálum til að minna á skyldu sveitarfélaga að setja hagsmuni barna ávallt í forgang. 

Bréfið er svohljóðandi: 

 

Til sveitarstjóra, sveitarstjórnarmanna og nefndarmanna í skólanefndum

 

Reykjavík, 4. febrúar 2016
UB:1602/16.3

Vegna þess niðurskurðar sem nú er fyrirhugaður hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar vill umboðsmaður barna minna sveitarfélög á þá skyldu sína að setja hagsmuni barna í forgang. Umboðsmaður barna hefur áður sent áskorun til sveitarfélaga um að hlífa börnum við niðurskurði, til dæmis í bréfum dags. 2. og 21. mars 2011.

Samkvæmt 3. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem hefur verið lögfestur hér á landi, sbr. lög nr. 19/2013, er sveitarfélögum skylt að setja hagsmuni barna í forgang við allar ákvarðanir sem varða börn með einum eða öðrum hætti.  Af þessu leiðir meðal annars að sveitarfélögum ber að leita annarra leiða við niðurskurð áður en þjónusta við börn er skert. Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna, sem hefur eftirlit með framkvæmd Barnasáttmálans, hefur bent á að áður en opinberir aðilar taka ákvarðanir sem varða börn, þar á meðal ákvarðanir um hagræðingu eða niðurskurð, ber þeim að greina og meta hvort og þá hvaða áhrif þær muni hafa á hagsmuni og réttindi barna (e. Child impact assessment). Þannig er hægt að tryggja að ákvarðanir séu betur í samræmi við það sem er börnum fyrir bestu, og að tekið sé tillit til sjónarmiða barna, í samræmi við réttindi þeirra samkvæmt Barnasáttmálanum.

Það eru grundvallarréttindi allra barna að fá menntun við hæfi. Mikilvægt er að tryggja að öll börn hafi sömu tækifæri til menntunar og hafi jafnan aðgang að frístundastarfi. Niðurskurður á sviði leikskóla, grunnskóla og frístundastarfs, svo sem hækkun á gjaldskrám og skerðing á þjónustu, getur haft verulega neikvæð áhrif á daglegt líf barna og ýtt undir það félagslega misrétti sem börn búa óneitanlega við.

Umboðsmaður barna hefur ítrekað bent á að fjárhagslegar ástæður réttlæti ekki afturför þegar kemur að mannréttindum barna. Þurfa sveitarfélög því að fara sérstaklega varlega þegar kemur að hagræðingu á sviði skóla- og frístundamála eða annarra sviða sem eru mikilvæg börnum. Brýnt er að gæta þess að hagsmunir barna séu settir í forgang.

Umboðsmaður barna hvetur sveitarfélög til að ígrunda vel hvaða áhrif ákvarðanir um hagræðingu muni hafa til lengri tíma litið. Reynslan sýnir að niðurskurður á sviði mennta- og frístundamála geti haft verulega neikvæðar afleiðingar í för með sér, ekki síst fyrir börn sem standa að einhverju leyti höllum fæti. Þannig getur skert þjónusta með tímanum t.d. leitt til aukinna námserfiðleika og félagslegra vandamála.

Umboðsmaður barna skorar á sveitarfélög að virða Barnasáttmálann í störfum sínum og láta hagsmuni barna ganga framar hugsanlegum fjárhagslegum hagsmunum sveitarfélaga.

  

Með kærri kveðju, 

Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna

UB Logo Fyrir Vef 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica