12. janúar 2010

Niðurskurður á þjónustu við börn - Bréf til sveitarstjóra

Umboðsmaður barna hefur sent öllum sveitarstjórum bréf þar sem bent er á mikilvægi þess að hlífa börnum við þjónustuskerðingu.

Umboðsmaður barna hefur sent öllum sveitarstjórum tölvubréf þar sem bent er á mikilvægi þess að hlífa börnum við þjónustuskerðingu. Bréfið er svohljóðandi:

Reykjavík, 12. janúar 2010

Efni: Niðurskurður hjá sveitarfélögum á þjónustu sem varðar börn

Vegna ábendinga um niðurskurð á þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra vill umboðsmaður barna koma eftirfarandi á framfæri.

Börn eru viðkvæmur þjóðfélagshópur sem þarfnast sérstakrar verndar og umönnunar umfram aðra þjóðfélagsþegna. Er því mikilvægt að halda sérstaklega vel utan um þau á þessum erfiðu tímum og sjá til þess að þau njóti þeirrar þjónustu sem velferð þeirra krefst.

Það er aldrei heimilt að skerða lögbundna þjónustu við börn. Jafnvel í þeim tilvikum sem þjónusta við börn er ekki lögbundin þarf að gæta sérstakrar varfærni áður en hún er skert með einhverjum hætti. Má í því sambandi minna á 3. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem felur í sér að það sem er barni fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir sem varða börn. Af ákvæðinu leiðir meðal annars að skylt er að leita annarra leiða við niðurskurð áður en þjónusta við börn er skert með einum eða öðrum hætti.

Virðingarfyllst,

Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica