22. september 2020

Nemendaráð og viðmiðunarstundarskrá

Í byrjun september sendi umboðsmaður barna út bréf til allra nemendaráða grunnskóla vegna tillagna mennta- og menningarmálaráðuneytisins um breytingar á viðmiðunarstundarskrá grunnskóla. Þær breytingar eru viðbrögð ráðuneytisins við því að íslenskum nemendum hafi gengið illa í PISA könnunum. 

 

Í tillögunum ráðuneytisins kemur fram að auka á íslenskukennslu um u.þ.b. 80 mínútur á viku á yngsta stigi og tæplega klukkutíma á viku á miðstigi. Til þess að þetta gangi upp á að taka tíma úr stundatöflunni sem skólarnir hafa hingað til fengið að skipuleggja sjálfir. Á unglingastigi verður meiri áhersla á náttúrugreinar og í staðinn á að minnka valgreinar um að meðaltali 120 mínútur á viku.

Í bréfi umboðsmanns barna til nemendaráða segir meðal annars:

Umboðsmaður barna hefur bent á að börn og ungmenni eiga að fá að segja skoðun sína á breytingum sem skipta þau máli en grunnskólanemendur fengu ekki að taka þátt í vinnunni við þessar tillögur sem snúast um nám þeirra. Umboðsmaður barna vill því hvetja nemendaráð grunnskóla til þess að skoða þessar tillögur og koma sjónarmiðum sínum á framfæri við mennta- og menningarmálaráðuneyti.

 

Viðbrögð við þessu bréfi hafa verið góð og hafa tvö nemendaráð haft samband og beðið embættið um að koma þeirra ábendingum á framfæri og við því var að sjálfsögðu orðið. Hægt er að lesa tillöguna og umsagnir þeirra á samráðsgátt stjórnvalda .

Umsögn nemendaráðs Álfhólsskóla.

Umsögn nemendaráðs Reykhólaskóla.

Frestur til að skila inn umsögnum er til 30. september nk. og hvetjum við nemendaráð að skoða tillögurnar vel og koma sínum skoðunum á framfæri. Nemendaráðum er velkomið að leita til umboðsmanns barna til að fá frekari upplýsingar eða aðstoð við að koma sjónarmiðum sínum um þessar tillögur á framfæri. 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica