30. ágúst 2013

Nauðung gagnvart börnum í sérúrræðum

Á vormánuðum 2013 var unnin rannsókn í samstarfi við umboðsmann barna á nauðung gagnvart börnum í sérúrræðum á Íslandi. Ljóst er að nauðung í vinnu með börnum í sérúrræðum er ekki aðeins beitt í einstaka neyðartilfellum.

Á vormánuðum 2013 var unnin rannsókn í samstarfi við umboðsmann barna á nauðung gagnvart börnum í sérúrræðum á Íslandi. Rannsóknin var hluti af M.E.d ritgerð Margrétar Rannveigar Halldórsdóttur Í uppeldis- og menntunarfræðum við Háskóla Íslands undir handleiðslu dr. Steinunnar Gestsdóttur dósents við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og Atla F. Magnússonar, atferlisfræðings við Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.

Nauðung getur falið í sér margvíslega hegðun, t.d. að halda barni, loka það inni, eða fylgja því á milli staða gegn vilja barnsins og er alvarlegt inngrip í líf einstaklinga. Engu að síður er stundum nauðsynlegt að beita slíkum aðferðum í vinnu með börnum til að tryggja öryggi þeirra eða annara. Með hugtakinu sérúrræði er átt við skilgreindar skammtímavistanir fyrir börn undir 18 ára aldri og þá sérskóla sem starfandi eru á höfuðborgarsvæðinu. Í rannsókninni voru spurningalistar sendir til forstöðumanna skammtímavistana fyrir börn og kennara í sérskólum, og svarhlutfallið var 62%.

Nauðung gagnvart börnum bönnuð, nema í neyðartilvikum. Í rannsókn Margrétar sem náði til 347 barna á 14 daga tímabili kom í ljós að nauðung var beitt í 128 skipti á rannsóknartímabilinu. Af þeim börnum sem rannóknin náði til voru 13,8% þeirra beitt nauðung a.m.k einu sinni og 4,3% þeirra voru beitt nauðung oftar en einu sinni. Niðurstöðurnar benda til þess að nauðung í vinnu með börnum í sérúrræðum sé ekki aðeins beitt í einstaka neyðartilfellum. Því velta rannsakendur fyrir sér hvort ekki sé þörf á virkari skráningu og eftirliti með beitingu nauðungar.

Fjallað var um rannsóknina í Síðdegisútvarpinu á Rás 2, 29. ágúst 2013 og rætt við Margréti Rannveigu Halldórsdóttur og Atla F. Magnússon. Smellið hér til að hlusta.Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica