16. september 2014

Nafnbreytingar barna - Bréf

Umboðsmaður barna hefur sent Þjóðskrá Íslands bréf þar sem hann spyr nokkurra spurninga um nafnbreytingar barna og rétt þeirra til að tjá sig og hafa áhrif á eigin málefni.

Umboðsmaður barna hefur sent Þjóðskrá Íslands bréf þar sem hann spyr nokkurra spurninga um nafnbreytingar barna og rétt þeirra til að tjá sig og hafa áhrif á eigin málefni.

Samkvæmt 6. mgr. 14. gr. laga um mannanöfn getur Þjóðskrá Íslands samþykkt breytingu á kenninafni barns þó sá sem barn er kennt við sé andvígur því ef sérstaklega stendur á og telja verður að nafnbreytingin verði barni til verulegs hagræðis. Umboðsmaður barna hefur áhyggjur af því að þetta ákvæði sé túlkað of þröngt og ekki alltaf  í samræmi við hagsmuni barna og réttindi þeirra samkvæmt Barnasáttmálanum.

Þjóðskrá Íslands
Borgartúni 21
105 Reykjavík

 

Reykjavík, 11. september 2014
UB:1409/16.0 

Efni: Nafnbreytingar barna

Öll börn eiga rétt til nafns og er sá réttur meðal annars tryggður í 7. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013. Nafn er mikilvægur hluti af sjálfsmynd barna og er því rétt að fara varlega í að ákveða breytingar á nafni barna, enda eiga þau rétt á að viðhalda auðkennum sínum samkvæmt 8. gr. Barnasáttmálans. Á sama tíma verður þó að virða rétt barna til þess að hafa áhrif á málefni sem varða þau sjálf. Í  lögum um mannanöfn nr. 45/1996 er þessi réttur úrfærður með þeim hætti að börn þurfa frá 12 ára aldri sjálf að samþykkja nafnbreytingar, sbr. 3. mgr. 13. gr. og 8. mgr. 14. gr. laganna. Af öðrum lögum leiðir þó ennfremur að öll börn eiga rétt á að tjá sig um fyrirhugaðar nafnbreytingar og er skylt að taka réttmætt tillit til sjónarmiða þeirra í samræmi við aldur og þroska, sbr. 12. gr. Barnasáttmálans og 3. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003.  Ber því að veita börnum undir 12 ára aldri tækifæri til þess að tjá sig áður en nafni þeirra er breytt.

Kenninöfn barna skipta ekki síður máli fyrir sjálfsmynd þeirra en eiginnöfn, enda vísa þau oftast til tengsla barns við föður og/eða móður. Slíkt getur haft jákvæð áhrif, sérstaklega þegar barn er eða var í góðum tengslum við það foreldri sem það er kennt við. Umboðsmaður barna þekkir hins vegar einnig dæmi þar sem kenninöfn hafa neikvæð áhrif á sjálfsmynd barna og jafnvel þannig að nafn beinlínis veldur barninu vanlíðan. Getur það til dæmis átt við í þeim tilvikum sem umrætt foreldri hefur haft lítil, engin eða neikvæð samskipti við barnið og það vill mun fremur kenna sig við það foreldri sem hefur verið til staðar fyrir það. Þá geta komið upp aðstæður þar sem foreldri hefur brotið gegn barni með alvarlegum hætti og það er stöðug og íþyngjandi áminning fyrir barnið að bera nafn brotmannsins.

Samkvæmt 6. mgr. 14. gr. laga um mannanöfn getur Þjóðskrá Íslands samþykkt breytingu á kenninafni barns þó sá sem barn er kennt við sé andvígur því ef sérstaklega stendur á og telja verður að nafnbreytingin verði barni til verulegs hagræðis. Þetta ákvæði ber að túlka til samræmis við réttindi barns samkvæmt Barnasáttmálanum og öðrum lögum. Má í því sambandi sérstaklega nefna að samkvæmt 3. gr. Barnasáttmálans og 2. mgr. 1. gr. barnalaga ber það sem er barni fyrir bestu ávallt að hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir sem varða börn. Er því rétt að láta hagsmuni þess barns sem óskar eftir breytingu á kenninafni vega þyngra en hugsanlegir hagsmunir þess foreldris sem barn er kennt við. Þá ber að virða stigvaxandi rétt barna til þess að hafa áhrif á eigið líf og leyfa stálpuðum börnum að ráða mestu um það við hvaða foreldri þau eru kennd. Umboðsmaður barna hefur fengið ábendingar um að fyrrnefnt ákvæði um breytingu á kenninöfnum sé túlkað mjög þröngt í framkvæmd. Sem dæmi um það má nefna tvö mál þar sem nafnbreytingu stálpaðs barns var hafnað, jafnvel þó það hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi af hálfu þess foreldris sem það var kennt við. Umboðsmaður barna telur þessa túlkun ekki í samræmi við ofangreind réttindi.

Samkvæmt 5. gr. laga nr. 83/1994 um umboðsmann barna er stjórnvöldum skylt þrátt fyrir þagnarskyldu að veita umboðsmanni barna allar þær upplýsingar sem að hans mati eru nauðsynlegar til þess að hann geti sinnt hlutverki sínu. Í ljósi þess sem að framan greinir óskar umboðsmaður barna eftir svörum frá Þjóðskrá Íslands við eftirfarandi spurningum:

  1. Hvernig er tryggt að börn undir 12 ára aldri fái að tjá sig um fyrirhugaðar nafnbreytingar og að tekið sé réttmætt tillit til sjónarmiða þeirra, í samræmi við 12. gr. Barnasáttmálans, sbr. lög nr. 19/2013 og 3. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003.
  2. Hvernig hefur 6. mgr. 14. gr. verið túlkuð í framkvæmd?
    1. Hversu margar óskir um breytingu á kenninafni barna 12 ára og eldri hafa borist frá 1. janúar 2009? Hversu margar af þeim hafa verið samþykktar og hversu mörgum hefur verið hafnað?
    2. Hvað þarf að koma til svo ósk um breytingu á kenninafni sé samþykkt?
    3. Hvernig er tryggt að börn fái að koma sínum sjónarmiðum á framfæri áður en ákvörðun er tekin og að tekið sé réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur og þroska?
    4. Hvernig er tryggt að hagsmunir barns hafi forgang þegar ákvörðun er tekin, sbr. 3. gr. Barnasáttmálans og 2. mgr. 1. gr. barnalaga?

Loks er óskað eftir öllum þeim upplýsingum sem máli kunna skipta í þessu sambandi. Endilega hafði samband í síma 552-8999 ef frekari upplýsinga er óskað.

Virðingarfyllst, 

_________________________________

Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica