26. apríl 2010

Mótmæli við heimili bitna á börnum

Mótmæli og skemmdarverk fyrir utan heimili geta haft neikvæð áhrif á líðan barna og brotið gegn rétti þeirra til friðhelgi einkalífs, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 16. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Vegna umræðu í fjölmiðlum um mótmæli við heimili fólks vill umboðsmaður barna koma eftirfarandi á framfæri.

Þegar verið er að mótmæla fyrir utan heimili fólks má ekki gleyma því að þar búa í mörgum tilvikum börn. Mótmæli og skemmdarverk fyrir utan heimili geta haft neikvæð áhrif á líðan barna og brotið gegn rétti þeirra til friðhelgi einkalífs, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 16. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Þó að tjáningarfrelsi einstaklinga sé vissulega mikilvægt getur verið nauðsynlegt að takmarka það að einhverju leyti til þess að vernda réttindi annarra og þá ekki síst barna. Börn eru sérstaklega viðkvæmur þjóðfélagshópur sem þarf á aukinni vernd að halda. Endurspeglast það meðal annars í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar þar sem fram kemur að börnum skuli tryggð sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Í athugasemdum með umræddu ákvæði kemur meðal annars fram að unnt sé að sækja stoð eða áréttingu í ákvæðið til þess „að heimila undantekningu frá öðrum reglum mannréttindakafla stjórnarskrárinnar ef slíkar undantekningar eru nauðsynlegar til verndar börnum“.

Umboðsmaður barna vill hvetja þá sem koma að mótmælum að huga að því að þau bitna í mörgum tilvikum á börnum. Í þessum málum ber sem endranær að huga að vernd barna og hafa það sem er þeim fyrir bestu að leiðarljósi. 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica