4. janúar 2022

Mikilvægt framlag barna í heimsfaraldri

Eftirfarandi grein eftir Salvöru Nordal, umboðsmann barna, birtist í Morgunblaðinu mánudaginn 3. janúar. Í greininni er meðal annars fjallað um nauðsyn þess að lagt sé mat á þau áhrif sem stjórnvaldsaðgerðir hafa á börn.

Nú þegar við höfum lifað í skugga heimsfaraldurs í nærri tvö ár er mikilvægt að horfast í augu við þá staðreynd að opinberar sóttvarnaraðgerðir hafa haft margvísleg áhrif á börn og ungt fólk. Fáir þjóðfélagshópar hafa orðið fyrir viðlíka áhrifum enda hefur skóla- og frístundastarf sem og félagslíf þessa hóps verið úr skorðum nánast allt þetta tímabil. Börn hafa þurft að sæta sóttkví, sum jafnvel mörgum sinnum og undanfarið hafa börn verið að greinast með kórónuveiruna í ríkari mæli en áður og hafa þá verið í einangrun, jafnvel ein, ef foreldrar hafa ekki haft tök á því að sinna þeim á meðan á einangrun stendur. Allt er þetta til þess fallið að valda börnum óvissu, áhyggjum og ótta. 

Erfitt er að gera sér grein fyrir öllum afleiðingum veirufaraldursins á börn enda líklegt að í mörgum tilvikum verði áhrifin langvarandi og komi ekki fram fyrr en síðar. Börn eru, eðli málsins samkvæmt, á viðkvæmum mótunaraldri þar sem breytingar og óvissa markar dýpri spor í líf þeirra og framtíð en þeirra sem eldri eru.

Mat á áhrifum á börn

Í því felst aðallar ákvarðanir sem teknar eru, séu rýndar út frá því hvaða áhrif þær hafa á börn

Tilfinnanlega skortir betri tölulegar upplýsingar um stöðu barna og þau áhrif sem veirufaraldurinn hefur haft á þau. Þá ber einnig að líta til þess að ólíkir hópar barna standa mismunandi að vígi, aðstæður heima fyrir eru ólíkar og aðgengi að stuðningi og tækjabúnaði sömuleiðis, ekki síst með tilliti til heimanáms. Þá búa mörg börn við þröngbýli og aðrar erfiðar félagslegar aðstæður sem gera þeim oft erfitt fyrir í aukinni heimaveru. Röskun á daglegum venjum hefur mikil áhrif á fötluð börn en þau hafa í meira mæli en önnur börn þurft að sæta takmörkunum á stuðningi í skóla og frístundastarfi svo dæmi séu nefnd. Þá bendir aukinn fjöldi tilkynninga til barnarverndarnefnda til þess að fleiri börn hafi búið við vanrækslu eða ofbeldi heima fyrir en áður.

Embætti umboðsmanns barna hefur á undanförnum árum lagt höfuðáherslu á að innleitt sé mat á áhrifum á börn innan stjórnkerfisins. Í því felst að allar ákvarðanir sem teknar eru, séu rýndar út frá því hvaða áhrif þær hafa á börn, að börn hafi aðgang að nauðsynlegum upplýsingum og leitað sé sjónarmiða þeirra eins og kostur er. Slíkt mat felur einnig í sér skyldu stjórnvalda til að grípa til mótvægisaðgerða til að draga úr neikvæðum áhrifum sem ákvarðanir kunna að hafa og sem mat á áhrifum leiðir í ljós.

Skortur á slíku kerfisbundnu mati í íslensku stjórnkerfi hefur verið tilfinnanlegt á síðustu misserum en hægt hefði verið að milda áhrif að minnsta kosti sumra aðgerða hefði slík mat þegar verið innleitt sem hluti af ákvarðanatöku stjórnvalda. Umboðsmaður barna mun áfram beita sér fyrir því að stjórnvöld haldi áfram innleiðingu Barnasáttmálans og hafi það sem börnum er fyrir bestu í forgrunni í allri ákvarðanatöku sem varðar þau.

Þrautseigja barna

Börnin okkar hafa sýnt ótrúlega þrautseigju á síðustu misserum

Í upphafi faraldursins, þegar ljóst var að hann legðist þyngst á eldra fólk, sló samfélagið allt skjaldborg utan um þann aldurshóp. Okkur tókst að vernda að miklu leyti þá kynslóð sem hefur skilað sínu dagsverki með sóma. Nú er komið að því að við beinum sjónum okkar að yngstu kynslóðinni sem nú býr sig undir að hefja sitt lífsstarf. Sem betur fer hefur unga kynslóðin ekki verið í mikilli hættu af því að sýkjast illa af veirunni en hún hefur aftur á móti upplifað sóttvarnirnar með miklum þunga.

Börnin okkar hafa sýnt ótrúlega þrautseigju á síðustu misserum og aðlagað sig nauðsynlegum breytingum eins og kostur er. Nú þegar nýtt ár er að hefjast er brýnt að við sameinumst um að viðurkenna mikilsvert framlag þeirra og blása þeim von í brjóst. Umboðsmaður barna hvetur stjórnvöld, foreldra og alla þá sem vinna með börnum til að beina sjónum að þátttöku og framlagi barna til baráttunnar gegn veirunni þar sem börn hafa svo sannarlega lagt sitt af mörkum til að tryggja lýðheilsu og aðra mikilvæga samfélagslega hagsmuni. Fyrir það ber að þakka og börn þurfa svo sannarlega á þeirri viðurkenningu að halda.


Ítarefni: 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica