15. júní 2007

Meðlagsgreiðslur úr landi

Umboðsmaður barna ritaði heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra bréf í byrjun maímánaðar þar sem hann óskaði eftir upplýsingum um hvort ráðherra hafi sett reglur um fyrirframgreiðslu meðlags þegar foreldrar eða börn eru búsett erlendis.

Umboðsmaður barna ritaði heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra bréf í byrjun maímánaðar þar sem hann óskaði eftir upplýsingum um hvort ráðherra hafi sett reglur um greiðslu meðlags þegar foreldrar eða börn eru búsett erlendis. Hafi þær ekki verið settar hvetur umboðsmaður ráðherra til þess að beita sér fyrir því að slíkt verði gert til að tryggja öllum íslenskum börnum sama rétt til meðlagsgreiðslna óháð búsetu,  þ.e. ef meðlagsskyldur aðili býr og starfar hér á landi.

Málavextir eru þeir að á árinu 2003 var 67. gr. barnalaga nr. 76/2003 breytt á þann veg að Tryggingastofnun er ekki lengur skylt að greiða meðlag til rétthafa meðlagsgreiðslna sem ekki eru búsettir hér á landi. Við framangreinda lagabreytingu varð gjörbreyting á innheimtu meðlaga vegna íslenskra barna búsettra erlendis þó hinn meðlagsskyldi búi hér á landi og hefur innheimtan verið í höndum forsjárforeldra sjálfra frá 1. nóvember 2003.

Á grundvelli milliríkjasamninga hafa rétthafar meðlagsgreiðslna sem búsettir eru á Norðurlöndum eða innan EES - svæðisins getað fengið meðlagsgreiðslur eftir reglum búsetulandsins í gegnum þar til bær yfirvöld. Fyrir þá sem búsettir eru utan þessara svæða gilda hins vegar ekki sömu úrræði.

Til þess er og að líta að þessar reglur gilda hvort heldur rétthafar greiðslna eru búsettir erlendis í skamman tíma t.d. vegna náms eða til langframa. Þá eru meðlagsgreiðslur almennt hærri hér á landi en í þessum löndum.

Til þess að reyna að koma til móts við þá íslensku ríkisborgara sem ekki eru búsettir hér á landi en eiga rétt á meðlagi frá meðlagsskyldum aðila sem býr og starfar á Íslandi var 59. gr. laga um almannatryggingar nr. 117/1993 breytt árið 2004 (lög nr. 78/2004) og heilbrigðisráðherra fengin heimild til þess að setja reglur um fyrirframgreiðslu meðlags þegar foreldrar eða börn eru búsett erlendis.

Í svarbréfi frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, dags. 13. júní, segir að ráðherra hafi ekki sett reglugerð eða reglur á grundvelli heimildarinnar í 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar (endurútgefin 11. maí).  Ráðuneytið er þó sammála umboðsmanni um að æskilegt væri að setja reglugerð um fyrirframgreiðslu meðlags þegar foreldrar eða börn eru búsett erlendis. Í bréfinu segir að unnið sé að undirbúningi slíkrar reglugerðar en það krefst samráðs við hlutaðeigandi stofnanir og ráðuneyti og hefur því tekið nokkuð langan tíma.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica