16. febrúar 2006

Meðferð kynferðisbrotamála á rannsóknarstigi

Hinn 6. febrúar sl. sendu umboðsmaður barna og Barnaverndarstofa bréf til dómsmálaráðherra þar sem skorað er á hann að gerð verði úttekt á reynslunni af breytingum á lögum nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála eins og þeim var breytt með lögum nr. 36/1999. 

Lögum um meðferð opinberra mála var breytt árið 1999 m.a. að tilstuðlan umboðsmanns barna, með lögum 36/1999, á þann veg að ef grunur léki á að barn hefði verið beitt kynferðislegri misnotkun skyldi lögregla ávallt leita til dómara með beiðni um skýrslutöku á rannsóknarstigi. Fram til þessa hafði yfirheyrslan verið, eins og í öðrum sakamálum, í höndum lögreglu og hefðu börn því jafnvel þurft að segja oft frá upplifun sinni á ofbeldinu meðan á rannsókn málsins stóð. Markmiðið með lagabreytingunni var að veita börnum vernd gegn endurteknum yfirheyrslum og þeirri vanlíðan sem því hlýtur að fylgja.

Á árinu 2005 barst umboðsmanni ábending frá Neyðarmóttöku vegna nauðgana (Landsspítala háskólasjúkrahúsi) þar sem vakin var athygli umboðsmanns barna á að þjónustu við ung börn sem beitt hafi verið kynferðislegu ofbeldi væri að ýmsu leyti ábótavant, m.a. vegna langs biðtíma barna eftir skýrslutöku, sem er grundvöllur fyrir áframhaldandi aðstoð sem barninu er nauðsynleg.
 
Í kjölfarið var haldinn fundur á skrifstofu Barnaverndarstofu þar sem saman voru komnir auk fulltrúa Barnaverndarstofu og Barnahúss, umboðsmaður barna og fulltrúar Barnaverndar Reykjavíkur, Lögreglustjórans í Reykjavík, Ríkissaksóknara og Ríkislögreglustjóra.  Á fundinum var m.a. farið yfir ýmsar málsmeðferðarreglur, bæði hjá barnaverndaryfirvöldum og hjá réttarvörslukerfinu, hvaða leiðir væri unnt að fara til að bæta vinnslu þessara mála og hvernig tryggja mætti nauðsynlegt samstarf þeirra aðila sem að málunum koma. Töldu þessir aðilar rétt að gerð yrði úttekt á reynslunni af breytingum á lögum nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála eins og þeim var breytt með lögum nr. 36/1999. 
 
Hinn 3. febrúar sl. sendu umboðsmaður barna og Barnaverndarstofa bréf til dómsmálaráðherra þar sem skorað er á hann að slík úttekt verði gerð og tekið verði á réttarstöðu barna sem grunur leikur á að orðið hafi fyrir kynferðisofbeldi. Engum vafa er undirorpið að réttarstaða barna var um margt bætt með þessum lagabreytingum en það er m.a. mat margra að rannsókn mála sé að sumu leyti tafsamari en áður var.  
 
Í bréfinu segir m.a. að mikilvægt sé að meta hvort þessar breytingar, einkum á 74. gr. a., hafi haft tilætluð jákvæð áhrif á meðferð þessara mála eða hvort ástæða sé til að gera breytingar sem tryggja frekar hagsmuni barna sem verða fyrir kynferðislegu ofbeldi.
 
Þá er ekki síður mikilvægt að aðgerðir við upphaf rannsóknar kynferðisbrota séu markvissar og að ekki verði dráttur á skýrslutöku af barni eftir að grunur vaknar um að brot hafi verið framið. Lagaákvæði um framkvæmd skýrslutöku verða að taka mið af því. M.a. væri rétt að skoða hvort setja eigi ákvæði um tímafresti svo sem um að skýrslutaka fari fram eigi síðar en einni viku / tveim vikum eftir að lögreglu berst kæra. Til þess er að líta að læknisrannsókn á barni fer ekki fram fyrr en að lokinni skýrslutöku og meðferðarúrræði fyrir barnið bíða hennar einnig. Jafnframt er brýnt að settar verði verklagsreglur um rannsókn og meðferð kynferðisbrotamála er varða börn, sbr. verklagsreglur um meðferð og skráningu heimilisofbeldismála.

Opna bréf umboðsmanns barna og Barnaverndarstofu til dómsmálaráðherra, dags. 3. febrúar 2006.

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica