12. apríl 2018

Málefni barna í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar

Þann 4. apríl sl. var lögð fram á Alþingi tillaga til þingsályktunar um fjármálaætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2019-2023. Gerir tillagan ráð fyrir því að embætti umboðsmanns barna verði falið að vinna tiltekin verkefni sem miða að því að styrkja stöðu barna í íslensku samfélagi.

Um embætti umboðsmanns barna í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2019-2023

Þann 4. apríl sl. var lögð fram á Alþingi tillaga til þingsályktunar um fjármálaætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2019-2023. Gerir tillagan ráð fyrir því að embætti umboðsmanns barna verði falið að vinna tiltekin verkefni sem miða að því að styrkja stöðu barna í íslensku samfélagi. Nauðsynlegt er að tryggja samræmda og markvissa stefnu í málefnum barna á öllum stigum stjórnsýslunnar eins og ákvæði barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna gera ráð fyrir. Til grundvallar þurfa að liggja vandaðar greiningar og rannsóknir sem stuðla að upplýstri umræðu og faglegum ákvörðunum. Því gerir fjármálaáætlunin ráð fyrir því að embætti umboðsmanns barna framkvæmi, í samvinnu við ýmsa aðila, greiningar á stöðu barna í íslensku samfélagi, með því að taka til skoðunar hverju sinni tiltekinn hóp sem stendur höllum fæti, og vinna að tillögum um nauðsynlegar umbætur og æskilega framþróun í málum hvers hóps. Áhersla verður lögð á að meta stöðu þess hóps sem til skoðunar er hverju sinni út frá ákvæðum Barnasáttmálans og þeim skyldum sem lagðar eru á aðildarríkin um að grípa til að aðgerða til að tryggja velferð barna. Áhersla verður einnig lögð á að ná til barnanna sjálfra með því að setja á laggirnar sérfræðihópa þar sem börnunum gefst kostur á að tjá sig um eigin reynslu, upplifan og líðan og leggja til úrbætur út frá eigin reynsluheimi.

 

Batabryggja2

Mynd: Benjamin Suomela / Norden.org

 

Umboðsmaður barna vinnur samkvæmt þeirri framtíðarsýn að Barnasáttmálinn verði innleiddur með skipulegum hætti í lagaumhverfi og framkvæmd og verði stjórnvöldum leiðarljós til framtiðar í öllum málaflokkum ríkis og sveitarfélaga er varða börn. Til þess að svo megi verða þarf að leita eftir og hlusta á sjónarmið barna í öllum málum er varða þau. Í fjármálaáætluninni er því gert ráð fyrir að embætti umboðsmanns barna auki á næstu árum verulega þann fjölda frumvarpa, stefna og áætlana sem rýnd verða út frá barnaréttarsjónarmiðum og ákvæðum Barnasáttmálans.

Með fjármálaáætluninni er einnig gert ráð fyrir að embætti umboðsmanns barna boði til Barnaþings á árinu 2019 til að fara yfir stöðu innleiðingar Barnasáttmálans og þróun í málefnum barna og leggja til úrbætur.

Í fyrirliggjandi drögum að fjármálaáætlun er jafnframt að finna ýmis önnur markmið og tillögur að aðgerðum sem snúa að börnum og málefnum þeirra.

 

Æskulýðs- og íþróttastarf

Endurskoða á æskulýðslög, nr. 70/2007, með það að leiðarljósi að skapa rými fyrir börn og ungmenni til að hafa áhrif í samræmi við ákvæði Barnasáttmálans. Unnið verður að íþróttastefnu og stefnu í æskulýðsmálum og bæta á umgjörð og auka gæði í skipulögðu íþróttastarfi og fjölga iðkendum á aldrinum 6-18 ára.

 

Ithrottavoellur

Mynd: Austris Augusts / Norden.org

Vernd barna og friðhelgi

Fram á að fara endurskoðun á lögum um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum með það í huga að betur verði farið eftir ákvæðum laganna um aldursmerkingar. Þá er gert ráð fyrir því að sett verði saman fræðsla fyrir börn og þá sem vinna með börnum um réttindi barna í samhengi við persónuvernd og nýja evrópulöggjöf á því sviði.

Framhaldsskólar

Endurskoða og breyta á lögum um framhaldsskóla, nr. 92/2008, ásamt reglugerðum og eftir atvikum aðalnámskrá framhaldsskóla. Skoða á hvernig lög um námsstyrki þjóna því hlutverki að jafna fjárhagslegan aðstöðumun og grípa skal til aðgerða til að fleiri nemendur ljúki prófi úr framhaldsskóla á tilskildum tíma. Kallað verður eftir móttökuáætlunum framhaldsskóla fyrir nemendur af erlendum uppruna og staða þeirra í námi verður könnuð og gripið verður til aðgerða í samræmi við þær niðurstöður. Þá verður hrundið í framkvæmd reglulegri söfnun og birtingu lykiltalna um starfsemi framhaldsskóla sem nýta á til stefnumótunar. 

 

Mynd frá Norden.org - barn í fjöru

Mynd: Adam Whitlock / Norden.org

Grunnskóli

Endurskoða á ákvæði í lögum um grunnskóla um samræmd könnunarpróf, hlutverk þeirra, markmið og framkvæmd. Grípa á til aðgerða til að fleiri grunnskólanemendur nái lágmarksviðmiðum í lestri við lok grunnskóla og bæta á árangur í PISA-rannsókn í lesskilningi og þá sérstaklega meðal nemenda af erlendum upruna. Auka á hlutfall grunnskóla þar sem nemendur hafa aðgang að þjónustu náms- og starfsráðgjafa. Fjölga á námsgögnum sem gefin eru út í samræmi við aðalnámskrá grunnskóla 2011 og 2013, þ.m.t. stafrænum námsgögnum og námsgögnum fyrir nemendur sem nota táknmál og nemendur með annað móðurmál en íslensku.

Jafnframt á að kanna gæði og umfang þjónustu náms- og starfsráðgjafa í grunn- og framhaldsskólum.

Fjölskyldumál og málefni fatlaðra barna

Auka á snemmtæka íhlutun í málefnum barna. Bæta á gæði í þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra, fækka á börnum á biðlista eftir greiningum hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og auka hlutfall foreldra sem eru ánægðir með þjónustuna. Kortleggja á þörf barna fyrir  snemmtæka og þverfaglega þjónustu og þróa á mælikvarða fyrir árangursmat. Sett verða á laggirnar tilraunaverkefni til að efla og samþætta þjónustu við börn í heimabyggð.

Mynd frá Norden.org - Börn á hlaupum upp hringtorg

Mynd: Yadid Levy/Norden.org


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica