7. mars 2018

Mál tengt umskurði bíður afgreiðslu hjá Barnaréttarnefndinni

Umræðan um frumvarp til breytinga á hegningarlögum er varðar umskurð drengja hefur verið áberandi að undanförnu. Embættið vill stuðla að víðtækri umræðu og hefur vakið athygli á ýmsum þáttum er varðar umskurð drengja. Að þessu sinni vekur umboðsmaður barna athygli á máli sem bíður nú afgreiðslu barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna og varðar umskurð á dreng.

Umræðan um frumvarp til breytinga á hegningarlögum er varðar umskurð drengja hefur verið áberandi að undanförnu. Embættið vill stuðla að víðtækri umræðu og hefur vakið athygli á ýmsum þáttum er varðar umskurð drengja. Að þessu sinni vekur umboðsmaður barna athygli á máli sem bíður nú afgreiðslu barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna og varðar umskurð á dreng.

Barnaréttarnefndin er alþjóðlegur eftirlitsaðili framkvæmdar Barnasáttmálans. Nefndin hefur mikil áhrif á túlkun ákvæða Barnasáttmálans með almennum athugasemdum sínum (e. general comments) og álitum í einstaklingsmálum. Þá hefur nefndin áréttað í almennum athugasemdum sínum að Barnasáttmálinn sé lifandi plagg og því sé túlkun þeirra réttinda sem þar er kveðið á um í stöðugri þróun. Á grundvelli þriðju valfrjálsu bókunarinnar við Barnasáttmálann geta börn eða fulltrúar þeirra leitað til barnaréttarnefndarinnar með mál sín ef þau telja aðildarríki ekki uppfylla skyldur sínar samkvæmt sáttmálanum. Ísland hefur enn ekki undirritað né fullgilt bókunina en af Norðurlandaþjóðunum hafa Danmörk og Finnland fullgilt hana og geta börn í þeim löndum því leitað til barnaréttarnefndarinnar þegar búið er að tæma kæruleiðir innanlands.

Málið sem um ræðir er einstaklingsmál gegn Finnlandi þar sem drengur var umskorinn án samþykkis móður hans. Í málinu er því meðal annars haldið fram að Finnland hafi ekki staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt 1., 2., 3., 16. og 19. gr. Barnasáttmálans. Ekki er ljóst hvenær barnaréttarnefndin muni taka málið fyrir en hér má finna lista yfir þau mál sem bíða afgreiðslu nefndarinnar á grundvelli þriðju valfrjálsu bókunarinnar. Áhugavert verður að sjá hvernig barnaréttarnefndin mun taka á þessu máli en nefndin hefur áður bent á skaðsemi umskurðar stúlkubarna. Þá má benda á álit nefndarinnar í einstaklingsmáli gegn Danmörku frá janúar 2018 en þar var deilt um þá ákvörðun danskra stjórnvalda að vísa móður úr landi með rúmlega tveggja ára gamalt stúlkubarn til Sómalíu þar sem stúlkan var í hættu á að verða umskorin.

Það var niðurstaða nefndarinnar í málinu að Danmörk hafi ekki tekið tillit til bestu hagsmuna stúlkunnar við mat á hættunni á því að stúlkan yrði umskorin ef henni yrði vísað úr landi til Sómalíu. Auk þess var talið að Danmörk hefði ekki gripið til viðeigandi ráðstafana til að tryggja öryggi barnsins við komuna til Sómalíu sem færi  í bága við 3. og 19. gr. Barnasáttmálans. Álitið má finna hér í heild sinni.

 


Fyrri skrif umboðsmanns barna um umskurð drengja: 

Vegna umræðu um umskurð drengja - frétt á heimasíðu

Regluverk í Svíþjóð um umskurð drengja - glósa á facebook

Álit um umskurð drengja


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica