2. september 2011

Lýðræðisleg þátttaka foreldra í þágu skólastarfs

Öllum má vera ljós ávinningur af virkri þátttöku foreldra í skólastarfinu. Til þess þurfa þeir að fræðast um og þekkja hinar formlegu leiðir við að koma hagsmunamálum sínum og nemenda á framfæri.

Margir grunnskólar eru með fræðslu fyrir foreldra eða skólafærninámskeið, þar sem foreldrum er kynnt skólastarfið og samstarf heimila og skóla. Í slíkri fræðslu er mikilvægt að foreldrafélag skólans kynni sérstaklega starfsreglur sínar og starfsemi og fari yfir réttindi og skyldur foreldra. Þegar barn byrjar í grunnskóla verða tímamót í fjölskyldulífinu og 10 ára lögbundin skólaskylda tekur við. Því fylgja ýmsar skyldur foreldra. Viðmót starfsfólks skólans getur skipt sköpum um hug foreldra til þessa nýja hlutverks sem og leiðbeiningar og góðar upplýsingar strax við upphaf skólagöngunnar. Sé barnið að flytjast milli skóla geta foreldra kynnt sér skólanámskrá og starfsemina á heimasíðu skólans eða leitað eftir upplýsingum á skrifstofu skólans. Hefðir og verklagsreglur  geta verið mismunandi eftir skólum en með lögum um grunnskóla (91/2008 ) eru foreldrafélög nú lögbundin.

Rannsóknir sýna að börn þeirra foreldra sem eiga hlutdeild í skólastarfinu eru líklegri til að sýna góða hegðun og framkomu. Jafnframt sýna rannsóknir að áhrif foreldra á námsárangur barna er mun meiri en almennt hefur verið talið. Stuðningur foreldra felst fyrst og fremst í þeim gildum og viðhorfum sem ríkja á heimili barnsins til menntunar og skólastarfs. Það er umræðan heima, væntingar foreldranna, hvatning og örvun mikilvægir þættir og geta verið undirstaða námsárangurs og farsæls skólastarfs. Af þessum ástæðum þurfa skólastjórnendur að leita allra leið til að gefa foreldrum aukna og markvissa hlutdeild í skólastarfinu og þurfa að líta á þá sem mikilvæga samstarfsaðila á jafnréttisgrundvelli.

Öllum má vera ljós ávinningur af virkri þátttöku foreldra í skólastarfinu. Til þess þurfa þeir að fræðast um og þekkja hinar formlegu leiðir við að koma hagsmunamálum sínum og nemenda á framfæri. Foreldrar þurfa að hittast og þekkjast til að geta átt farsælt samstarf og mikilvægt að eiga samskipti augliti til auglitis við aðra foreldra, nemendur og starfsfólk skólans við hin ýmsu tækifæri í skólagöngu barnsins.

Virkt lýðræði er þar sem almenningur tekur virkan þátt í ákvarðanatökum um sín mál og til að undirbúa farsælt samstarf er mikilvægt að foreldrar séu virkir í skólastarfinu alla skólagöngu barnsins.   Foreldrar eru helstu hagsmunagæslumenn nemenda. Með samstarfi  og borgaralegri þátttöku hafa foreldrar tekið þátt í skólaþróun og komið mörgum framfaramálum til leiðar. Með því að taka þátt í félagslífi bekkjarins og með því að  læra og lifa í lýðræðislegu umhverfi öðlast börn aukna lýðræðisvitund. Þar eru foreldrar og kennarar fyrirmyndir og börnin læra af þeim hvernig hægt er að bera sig að, læra meðákvörðunarrétt  og hvernig þeir geta gegnt lýðræðisskyldum sínum.

Helga Margrét Guðmundsdóttir
tómstunda – og félagsmálafræðingur


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica