6. desember 2012

Lýðræði í grunnskólum II - Bréf

Umboðsmaður barna sendi nýlega bréf til allra grunnskóla þar sem hann greinir frá niðurstöðum úr svörum 35 grunnskóla við spurningum umboðsmanns um nemendafélög og skólaráð sem hann sendi í fyrra.

Umboðsmaður barna sendi nýlega bréf til allra grunnskóla þar sem hann greinir frá niðurstöðum úr svörum 35 grunnskóla við spurningum umboðsmanns um nemendafélög og skólaráð sem hann sendi í fyrra:

UB: 1211/6.2.8

Kæri skólastjóri.

Umboðsmaður barna sendi tölvupóst til allra grunnskóla í október 2011 og óskaði eftir upplýsingum um nemendafélög og aðkomu nemenda að skólaráðum. Bréfið er hægt að nálgast hér.

Nemendur og skólastjórnendur hafa gjarnan ólíka sýn á skólastarfið og leitaði því umboðsmaður barna bæði til skólastjóra og formanna nemendafélaga grunnskólanna og óskaði eftir að þeir svöruðu í sameiningu, ef kostur væri, nokkrum spurningum um nemendafélög og aðkomu nemenda að skólaráði skv. 8. og 10. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 og reglugerðar um skólaráð við grunnskóla nr. 1157/2008. Lög um grunnskóla nr. 91/2008 tóku gildi 1. júlí 2008 og höfðu grunnskólar landsins því starfað eftir þeim í þrjú ár þegar tölvupóstur umboðsmanns barst. Ætlun umboðsmanns var að safna upplýsingum og dæmum um góð vinnubrögð þegar kemur að lýðræðislegri aðkomu nemenda að skólastarfi. Auk þess vonaði umboðsmaður barna að fyrirspurn af þessu tagi gæti orðið til þess að ýta við þeim skólum sem ekki voru búnir að innleiða  nýtt verklag í samræmi við nýju lögin. Einnig voru allar upplýsingar um það hvernig er unnið með þátttöku nemenda í skólasamfélaginu og lýðræði í skólanum vel þegnar.

Svör bárust frá 35 grunnskólum alls staðar af landinu og þakkar umboðsmaður barna kærlega fyrir þau. Við úrvinnslu á svörum grunnskólanna kom í ljós að jákvæðar breytingar hafa átt sér stað þegar kemur að nemendalýðræði innan grunnskólanna og mörg góð dæmi voru um mikilvæg hagsmunamál sem nemendafélögin hafa unnið að. Í flestum skólum var starfsemi nemendafélaganna vel kynnt nemendum og voru langflestir skólar með leynilega skriflega kosningu í bekk til að velja fulltrúa í nemendafélögin. Eitt af því sem vakti athygli umboðsmanns barna var að aðeins í sex skólum fundar skólaráð með stjórn nemendafélagsins en samkvæmt 8. gr. laga um grunnskóla skal skólastjóri boða til sameiginlegs fundar skólaráðs og stjórnar nemendafélags að lágmarki einu sinni á ári. Samkvæmt svörunum sem bárust virðast skólastjórar oft ekki átta sig á þessari skyldu sinni samkvæmt lögunum. Samantekt umboðsmanns barna á svörum grunnskólanna má nálgast hér.

Umboðsmaður barna hvetur skólastjórnendur til að kynna sér ákvæði grunnskólalaga nr. 91/2008 sem snerta lýðræði og vinna að því að efla nemendalýðræði innan grunnskóla. Ef fleiri skólastjórnendur eða formenn nemendafélaga vilja svara fyrrnefndum tölvupósti umboðsmanns eða ef þeir sem þegar hafa svarað vilja uppfæra svarið sitt er það velkomið. Svör þurfa að berast fyrir lok árs 2012.

Ef spurningar vakna eða nánari upplýsinga er óskað er velkomið að hafa samband við umboðsmann barna í síma 552 8999.

Með kveðju,
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica