24. október 2011

Lýðræði í grunnskólum - Bréf

Umboðsmaður barna hefur sent öllum grunnskólum tölvupóst þar sem hann óskar eftir upplýsingum um nemendafélög og aðkomu nemenda að skólaráðum. Hugmyndin er að safna upplýsingum og dæmum um góð vinnubrögð til að miðla áfram á heimasíðu embættisins.

Umboðsmaður barna hefur sent öllum grunnskólum tölvupóst þar sem hann óskar eftir upplýsingum um nemendafélög og aðkomu nemenda að skólaráðum. Hugmyndin er að safna upplýsingum og dæmum um góð vinnubrögð til að miðla áfram á heimasíðu embættisins.

Bréfið er svohljóðandi:

Reykjavík,  21. október 2011
UB: 1110/6.2.8

Kæri skólastjóri og formaður nemendafélagsins.
 
Umboðsmaður barna hefur áhuga á því að kynna sér hvernig unnið er með lýðræði og þjálfun nemenda í lýðræðislegum vinnubrögðum í grunnskólum landsins.
 
Ákvæði 12. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna hefur lengi verið leiðarljós í starfi umboðsmanns barna. Þar er kveðið á um rétt barna til að láta í ljós skoðanir sínar í öllum málum er varða þau og að tekið sé réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur og þroska. Þá má nefna að í 13. gr. sáttmálans segir að börn eigi rétt  á að tjá sig, fá upplýsingar og koma þeim á framfæri.
 
Umboðsmanni barna er kunnugt um að í grunnskólum er víða unnið gott og faglegt starf á þessu sviði. Nemendur og skólastjórnendur hafa gjarnan ólíka sýn á skólastarf. Því leitar umboðsmaður nú bæði  til skólastjóra og formanna nemendafélaga grunnskólanna og óskar eftir að þeir svari í sameiningu, ef kostur er, nokkrum spurningum um nemendafélög og aðkomu nemenda að skólaráði skv. 8. og 10. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 og reglugerðar um skólaráð við grunnskóla nr. 1157/2008. Einnig eru allar upplýsingar um það hvernig er unnið með þátttöku nemenda í skólasamfélaginu og lýðræði í skóla ykkar vel þegnar. Hugmyndin er að safna upplýsingum og dæmum um góð vinnubrögð til að miðla áfram á heimasíðu embættisins,
www.barn.is. Þannig geta fleiri lært af því sem vel er gert.
 
Undirrituð vonar að þið gefið ykkur tíma til  að svara meðfylgjandi spurningum um lýðræðisstarf í skólum ykkar.
 
Um nemendafélag

1.       Hvernig er starfsemi nemendafélags kynnt nemendum?
2.       Um fyrirkomulag kosninga nemenda í stjórn nemendafélags:
     a.       Hvaða árgangar eiga kost á að bjóða sig fram?
     b.      Hvernig eru framboð kynnt nemendum?
     c.       Hvernig fer kosning fram?
3.       Um starfsreglur um kosningu fulltrúa nemenda í skólaráð:
     a.       Hefur nemendafélagið sett sér starfsreglur? Ef svo er, vinsamlega sendið okkur eintak af þeim eða gefið upp vefslóð þar sem finna má upplýsingar.
     b.      Hafa nemendum verið kynntar starfsreglur nemendafélagsins um kosningu fulltrúa í skólaráð? Ef svo er, hvernig?
4.       Nefnið dæmi um mál sem nemendafélagið hefur unnið að.
 
Um skólaráð

5.       Eiga nemendur fulltrúa í skólaráði? Ef ekki, af hverju?
6.       Hafa kennarar eða starfsfólk valið nemendur í skólaráð? Ef svo er, af hverju?
7.       Sitja fulltrúar nemenda alla fundi skólaráðs? Ef ekki, af hverju?
8.       Nefnið dæmi um erindi sem fulltrúar nemenda hafa borið upp í skólaráði og gerið í stuttu máli grein fyrir afgreiðslu þeirra.
9.       Eru fundargerðir skólaráðs aðgengilegar á vef skólans?
10.   Hvað fundar skólaráðið oft á einu skólaári?
11.   Fundar skólaráð með stjórn nemendafélagsins? Ef svo er, hversu oft á ári?
12.   Heldur skólaráð opinn fund um málefni skólans fyrir aðila skólasamfélagsins? Ef svo er, hvaða málefni eru tekin fyrir á slíkum fundi/fundum?

Vinsamlega sendið svör á netfangið
ub@barn.is eða til umboðsmanns barna, Laugavegi 13, 101 Reykjavík.
 
Að lokum vill umboðsmaður taka fram að öllum er velkomið að leita til embættisins til að fá leiðbeiningar um réttindi og hagsmunamál barna eða til að koma ábendingum um það sem betur má fara á framfæri.

Kær kveðja,
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica