18. október 2011

Lokaathugasemdir frá Barnaréttarnefndinni í Genf

Þann 6. október 2011 skilaði Barnaréttarnefndin í Genf athugasemdum sínum við skýrslu íslenska ríkisins um framkvæmd Barnasáttmálans á Íslandi.

Í Barnasáttmálanum er kveðið á um að aðildarríki skuldbindi sig til að skila skýrslu til nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins um það sem þau hafa gert til að koma í framkvæmd réttindum þeim sem viðurkennd eru í Barnasáttmálanum. Að því tilefni skilaði Ísland þriðju og fjórðu skýrslu sinni saman árið 2008 en skýrslan var uppfærð seinni hluta ársins 2010 þar sem fyrirtöku skýrslunnar var frestað. Samhliða skýrslum aðildarríkja er stofnunum og frjálsum félagasamtökum, sem hafa hag barna að leiðarljósi, heimilt að senda inn sínar athugasemdir. Umboðsmaður barna nýtti sér það tækifæri og sendi skýrslu til Barnaréttarnefndarinnar í lok árs 2010 um það sem að hans mati mætti betur fara við framkvæmd Barnasáttmálans hér á landi.

Föstudaginn 23. september sl. var skýrsla íslenska ríkisins tekin fyrir hjá Barnaréttarnefndinni í Genf. Þangað fóru fulltrúar íslenska ríkisins til að ræða málefni barna á Íslandi og svöruðu spurningum nefndarinnar um stöðu barna hér á landi. Umboðsmaður barna sótti líka þann fund og fylgdist með störfum nefndarinnar.

Þann 6. október 2011 skilaði Barnaréttarnefndin svo athugasemdum sínum við skýrslu íslenska ríkisins sem má finna hér (í íslenskri þýðingu). Í athugasemdum nefndarinnar lýsir hún yfir ánægju með ýmsar lagabreytingar sem eru börnum til góðs ásamt öðru sem nefndin telur gott á Íslandi. Nefndin gagnrýnir íslenska ríkið fyrir að hafa ekki uppfyllt fyrri athugasemdir nefndarinnar og þá sérstaklega að fyrirvari við 37. gr. sáttmálans hefur ekki verið dreginn til baka og sáttmálinn lögfestur. Barnaréttarnefndin byggir athugasemdir sínar að mestu leyti á munnlegum og skriflegum upplýsingum frá íslenska ríkinu og skýrslum stofnana og frjálsra félagasamtaka. Í athugasemdum nefndarinnar segir orðrétt:

The Committee takes note of the deep financial crisis undergone by the State party since the crash of its banking system in 2008, which had a severe impact on its ability to maintain the level of public investment and employment, which in turn impacted on children and their families, especially on lower income families. However, the Committee notes with appreciation the State party´s fiscal efforts to protect the rights of children, especially regarding special protection measures, and that it intends to redress the budget cuts to social investment, including education and health, as its financial and economic situation steadily continues to improve.

Líklegt er að þetta byggi nefndin m.a. á fyrirheitum sem gefin eru í skriflegum svörum íslenskra stjórnvalda við spurningum Barnaréttarnefndarinnar sem tekin voru saman fyrir fundinn en í þeim segir meðal annars:

Thus, the Icelandic authorities aim at maintaining, and preferably, increasing the scope of protection and well-being of children in Iceland by not reducing the level of services both for children and families with dependent children under the age of 18. 

Umboðsmaður barna harmar að stuttu eftir heimkomu fulltrúa íslenska ríkisins hafi frumvarp til fjárlaga verið lagt fram þar sem boðaður er niðurskurður sem bitna mun beint á börnum. Má í því sambandi nefna niðurskurð í framhaldsskólum og niðurskurður hjá Barnaverndarstofu sem kemur í veg fyrir að Barnaverndarstofa geti aukið og viðhaldið þjónustu við börn sem eiga í alvarlegum vanda. Að því tilefni sendi umboðsmaður bréf til  fjárlaganefndar þar sem hann bendir á líklegar afleiðingar niðurskurðar og hvetur fjárlaganefnd til þess að leita annarra leiða við niðurskurð áður en þjónusta við börn er skert.

Að lokum tók nefndin fram í athugasemdum sínum að Ísland skuli skila fimmtu og sjöttu skýrslu sinni 26. maí 2018.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica