15. apríl 2011

Lög um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum ekki fylgt

Umboðsmaður barna hefur sent mennta- og menningarmálaráðherra bréf þar sem bent er á að lögum um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum nr. 62/2006 er ekki  nægilega fylgt í framkvæmd, þó að nær fimm ár séu liðin frá gildistöku þeirra.

Umboðsmaður barna hefur sent mennta- og menningarmálaráðherra bréf þar sem bent er á að lögum um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum nr. 62/2006 er ekki  nægilega fylgt í framkvæmd, þó að nær fimm ár séu liðin frá gildistöku þeirra. Bréfið er svohljóðandi:

Mennta- og menningarmálaráðherra
Katrín Jakobsdóttir
Sölvhólsgötu 4
150 Reykjavík

Reykjavík, 11. apríl 201
UB:1104/9.3

Efni:  Lög um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum nr. 62/2006

Börn eru berskjölduð fyrir neikvæðum áhrifum myndefnis, s.s. tölvuleikja, kvikmynda  og auglýsinga.  Slíkt efni getur haft mikil og varanleg áhrif á siðferðisþroska þeirra, sérstaklega þegar það inniheldur ofbeldi, klám, neikvæðar staðalímyndir eða jákvæð viðhorf til hluta eða athafna sem teljast skaðleg.

Ljóst er að lögum um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum nr. 62/2006 er ekki  nægilega fylgt í framkvæmd, þó að nær fimm ár séu liðin frá gildistöku þeirra.

Í 2. gr. laganna segir að meta skuli allar kvikmyndir og tölvuleiki sem ætlaðir eru til sýningar, sölu eða annarrar dreifingar fyrir börn með tilliti til þess hvort leyfa beri eða takmarka sýningu, notkun eða afhendingu við tiltekið aldursskeið. Sama á að gilda um ítarefni og kynningarefni um kvikmyndir og tölvuleiki. Í 3. gr. laganna er kveðið á um skyldu ábyrgðaraðila, þ.e. þeirra sem framleiða kvikmyndir eða tölvuleiki til sýninga eða sölu hér á landi eða hafa kvikmyndir eða tölvuleiki til sýningar, leigu, sölu eða annarrar dreifingar í atvinnuskyni hér á landi. Í ákvæðinu segir m.a. að ábyrgðaraðilar skuli birta verklagsreglur um framkvæmd ofangreinds mats opinberlega á vefsíðu sem almenningur hefur aðgang að og sölustöðum kvikmynda og tölvuleikja. Þá á að tilgreina nafn matsstjóra ábyrgðaraðila og veita almenningi leiðbeiningar um móttöku erinda og færa niðurstöður um mat á sýningarhæfni kvikmynda í gagnagrunn sem almenningur hefur aðgang að. Umboðsmaður barna getur ekki séð að farið sé að þessum ákvæðum, þrátt fyrir að Barnaverndarstofa, sem á m.a. að hafa eftirlit með lögunum, hafi verið að vinna að málinu um nokkurt skeið.

Með þessu bréfi vill umboðsmaður barna vekja athygli á þessu máli og hvetja ráðuneytið til úrbóta sem fyrst. Mikilvægt er að lögum sem sett eru í þeim tilgangi að vernda börn sé fylgt í framkvæmd.

Virðingarfyllst,

Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna

Svar barst frá menntamálaráðuneytinu, dags. 15. apríl. Í því segir að þar sem eftirlitshlutverk Barnaverndarstofu skv. lögum nr. 62/2006 hafi fallið illa að kjarnastarfsemi Barnaverndarstofu hafi verið ákveðið að fela nýrri stjórnsýslunefnd, fjölmiðlanefnd, eftirlit með lögunum. Þá segir að ráðuneytið bindi vonir við að fjölmiðlanefnd muni hafa virkara eftirlit með lögunum þar sem þau falla að öðrum verkefnum fjölmiðlanefndar hvað varðar vernd barna gegn skaðlegu hljóð- og myndmiðlunarefni. Umboðsmaður barna vonar að hið nýja fyrirkomulag muni verða til þess að lögunum verði fylgt í framkvæmd. 



Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica