20. janúar 2012

Líðan barna – Samanburður úr könnunum 2010 og 2011

Árið 2010 upplifðu 14,7% nemenda í 5. – 7. bekk sig aldrei eða sjaldan örugga á skólalóðinni sem verður að teljast nokkuð hátt hlutfall. Árið 2011 var þetta hlutfall orðið 15,4%. Árið 2010 töldu um 11% nemenda að kennarinn gerði stundum eða oft lítið úr einhverjum krakkanna en ári síðar töldu hins vegar um 15% nemenda að kennarinn gerði oft eða stundum lítið úr einhverjum krakkanna.

Líðan barna 2010
Árið 2010 lagði umboðsmaður barna fyrir könnun um líðan barna í 5. – 7. bekk  . Úrtakið sem var hentugleikaúrtak taldi um 1620 nemendur í 20 skólum. Svarhlutfallið var 83% eða 1344 nemendur og var bæði jöfn skipting á milli árganga og jafnt kynjahlutfall.

Niðurstöður þessara könnunar voru að mörgu leyti jákvæðar og á þeim mátti sjá að almennt virðist meirihluta barna líða vel. Þrátt fyrir það eru um 10 – 15% nemenda sem líður ekki vel, hvort sem spurt var um málefni skólans eða fjölskyldunnar. Þetta þýðir að um 130 – 200 af þeim börnum sem tóku þátt í könnuninni líður ekki nægilega vel. Það veldur umboðsmanni barna að sjálfsögðu töluverðum áhyggjum.

Í þessari könnun var m.a. spurt um öryggi á skólalóðum og í skólastofu. Niðurstöðurnar gáfu til kynna að um 14 – 15 % nemenda upplifðu sig oft eða sjaldan örugga á báðum stöðum. Það olli umboðsmanni nokkrum áhyggjum og þá sérstaklega að svona mörgum börn teldu sig ekki örugg  í skólastofunni. Skólastofan á að vera griðastaður nemenda þar sem börn eiga frekar að finna fyrir öryggi en ekki.

Samanburður 2011 

Í því skyni að fá samanburð en jafnframt til að minnka áreiti á börn við svörun kannana náði umboðsmaður barna samkomulagi við Rannsóknir og greiningu um að koma spurningum um það hvort börnin upplifðu öryggi í skólastofunni og á skólalóðinni ásamt spurningu um framkomu kennara gagnvart nemendum inn í rannsókn þeirra „Ungt fólk 2011. Menntun, menning, íþróttir, tómstundir, hagir og líðan nemenda í 5., 6., og 7. bekk grunnskóla“.  Settar voru fram staðhæfingar og nemendur beðnir um að merkja við einn af fjórir svarmöguleikum eftir því sem átti við um þau. Svarmöguleikarnir voru fjórir; aldrei, sjaldan, stundum og oft.

Mér finnst ég örugg/ur á skólalóðinni
Árið 2010 upplifðu 14,7% nemenda í 5. – 7. bekk sig aldrei eða sjaldan örugga á skólalóðinni sem verður að teljast nokkuð hátt hlutfall. Árið 2011 var þetta hlutfall orðið 15,4%. Í báðum tilvikum finna drengir fyrir minna öryggi á skólalóðinni en stúlkur.

Mér finnst ég örugg/ur í skólastofunni
Þegar kemur að öryggi í skólastofunni þá fundu 14,4% nemenda aldrei eða sjaldan fyrir öryggi í skólastofunni í könnuninni sem framkvæmd var 2010. Árið 2011 var þetta hlutfall nokkuð lægra en þá upplifðu 9,8% nemenda sig sjaldan eða aldrei örugga í skólastofunni. Líkt og í spurningunni um öryggi á skólalóðum þá upplifa drengir sig síður örugga en stúlkur.

Kennarinn gerir lítið úr einhverjum krakkanna
Í könnuninni árið 2010 töldu um 11% nemenda að kennarinn gerði stundum eða oft lítið úr einhverjum krakkanna og um 77% töldu að kennarinn gerði aldrei lítið úr einhverjum krakkanna.  Árið 2011 töldu hins vegar um 15% nemenda að kennarinn gerði oft eða stundum lítið úr einhverjum krakkanna og um 68% töldu að kennarinn gerði aldrei lítið úr einhverjum krakkanna. Þetta er töluverð breyting og hugsanlegt að álag á kennurum sé orðið meira sem hafi svo áhrif á framkomu þeirra við nemendur.

Hvaða lærdóm er hægt að draga af þessu?
Það er nauðsynlegt fyrir alla þá sem vinna með börnum eða í þágu barna að fá innsýn í það hvernig börnum líður almennt á hverjum tíma. Niðurstöður þessara kannana gefa okkur vísbendingu um að flestum börnum líði almennt vel í skólanum. Hins vegar sýna niðurstöðurnar einnig að mikilvægt er að huga betur að öryggi nemenda á skólalóðum og í skólastofum, t.d. með því að auka gæslu í frímínútum. Einnig má velta fyrir sér hvort kennarar séu í minna andlegu jafnvægi en áður. Kennarinn er  fyrirmynd nemenda sinna og hegðun hans getur átt ríkan þátt í að móta hegðun annarra í garð einstakra nemenda. Niðurskurður undanfarinna ára í menntamálum og þjónustu við börn, sameiningar skóla og  óvissa um framtíðina hafa vissulega valdið því að meira mæðir á því starfsfólki skólanna sem eru í daglegu samneyti við börnin. Allt verður að ganga eins og smurð vél og minnsta hnjask á skólastarfi eða í kennslu getur haft slæm áhrif á líðan nemenda. Þess vegar er nauðsynlegt að fjárhagslegar þrengingar komi ekki frekar niður á starfsemi skólanna sem börnum er skylt að sækja í 180 daga á ári.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica