29. október 2019

Laura Lundy, prófessor og sérfræðingur í þátttöku barna í heimsókn

Laura Lundy, prófessor við Queen‘s háskóla í Belfast og einn helsti sérfræðingur samtímans í þátttöku barna í stefnumótun og ákvarðanatöku er gestur umboðsmanns barna dagana 5. og 6. nóvember, n.k. Laura Lundy mun taka þátt í nokkrum fundum þessa daga um þátttöku barna á ólíkum sviðum samfélagsins.

Laura Lundy, prófessor við Queen‘s háskóla í Belfast og einn helsti sérfræðingur samtímans í þátttöku barna í stefnumótun og ákvarðanatöku er gestur umboðsmanns barna dagana 5.  og 6.  nóvember, n.k. Laura Lundy mun taka þátt í nokkrum fundum þessa daga um þátttöku barna á ólíkum sviðum samfélagsins.

Tilefni heimsóknarinnar er vinna við mótun aðgerðaráætlunar um aukna þátttöku barna í stefnumótun sem unnið er að en félags- og barnamálaráðherra fól umboðsmanni barna að vinna slíka áætlun með samningi sem gerður var í apríl s.l. Samningurinn byggir á samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 1. mars s.l. þar sem segir „að stefnt verði að aukinni þátttöku barna og ungmenna í stefnumótun stjórnvalda sem og tillögu sem felur í sér að allar stærri ákvarðanatökur sem og lagafrumvörp skuli rýnd út frá áhrifum á stöðu og réttindi barna.“

Aðgerðaráætlunin mun taka mið af Lundy módelinu um þátttöku barna sem skilgreinir þá þætti sem eru nauðsynlegir til að tryggja raunverulega þátttöku barna í ákvarðanatöku í anda 12. gr. Barnasáttmálans. 

Vinnustofa um þátttöku barna 6. nóvember

Laundy módelið og möguleikar til að auka þátttöku barna í stefnumótun og ákvarðanatöku verður rædd á sérstakri vinnustofu, miðvikudaginn 6. nóvember milli kl. 9 og 12 sem skipulögð er í samvinnu við félagsmálaráðuneytið og stýrihópa stjórnarráðsins um mannréttindi og málefni barna. Á vinnustofunni heldur Laura Lundy fyrirlestur og einnig Carmel Corrigan, sérfræðingur hjá umboðsmanni barna á Írlandi um aðgerðaráætlun Írlands en Írland samþykkti árið 2015 framsækna aðgerðaáætlun til fimm ára um samráð við börn.  Þá verður Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra með ávarp. Í lokin gefst þátttakendum einnig kostur á að deila reynslu af farsælu samráði við börn eða koma með hugmyndir að því hvernig slíku samráði sé best háttað hjá stjórnvöldum, opinberum stofnunum og sveitarstjórnum. Þessar hugmyndir verða síðan nýttar í vinnu við aðgerðaráætlun stjórnvalda um þátttöku barna í stefnumótun og ákvarðanatöku. 

Náum áttum fundur 5. nóvember

Laura Lundy mun halda erindi á morgunverðarfundi Náum áttum, þriðjudaginn 5. nóvember þar sem fjallað verður um áhrif barna á eigin réttindi og samfélag. Þar mun hún sérstaklega fjalla um börn sem verjendur réttinda. Aðrir frummælendur verða Elísabet Gísladóttir, sérfræðingur hjá dómsmálaráðuneytinu og þær Ída Karólína Harris og Ragnheiður Vala Höskuldsdóttir ungmenni sem tekið hafa þátt í loftslagsmótmælum.  

Hádegisfundur á Menntavísindasviði HÍ, 5. nóvember

Laura Lundy mun halda málstofu á Menntavísindasviði um þátttöku barna í skólastarfi og vísindarannsóknum en hún hefur birt fræðigreinar þar sem fjallað er um mikilvægi þess að gera börnum kleift að vera ekki aðeins viðfang rannsókna um t.d. skólamál heldur virkir þátttekendur í rannsóknunum. 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica