10. nóvember 2011

Lakari réttur framhaldsskólanema? - Bréf

Nú hefur komið í ljós að með nýju regluverki ætla stjórnvöld ekki að tryggja nemendum framhaldsskóla sama eða betri rétt en eldri reglur kváðu á um varðandi rétt til aðstoðar umsjónarkennara, sálfræðinga og félagsráðunauts.

Í september árið 2010 sendi umboðsmaður barna menntamálaráðuneytinu bréf til að spyrja hvernig ráðuneytið hyggist tryggja framhaldsskólanemendum sama eða betri rétt til aðstoðar umsjónarkennara, sálfræðinga og félagsráðunauts og reglugerð nr. 105/1990 tryggir en hana stendur til að fella á brott. Nú hefur komið í ljós að með nýju regluverki ætla stjórnvöld ekki að tryggja nemendum framhaldsskóla sama eða betri rétt varðandi þessi atriði. Þetta hlýtur að bitna mest á nemendum sem þurfa meiri aðstoð og utanumhald en aðrir, án þess þó að vera með sérþarfir samkvæmt greiningu. Ljóst er að ef vilji er fyrir hendi er hægt að draga úr brottfalli og bæta hag nemenda í framhaldsskólum með því að tryggja þeim góða þjónustu. Umboðsmaður hefur því skorað á mennta- og menningarmálaráðuneytið að tryggja börnum a.m.k. sambærilegan rétt og reglugerð nr. 105/1990 um framhaldsskóla kveður á um.

Fyrsta bréf umboðsmanns er svohljóðandi:

Mennta- og menningarmálaráðuneytið
Sölvhólsgötu 4
150 Reykjavík

Reykjavík, 13. september 2010
UB: 1009/6.3.0

Efni: Réttindi nemenda í framhaldsskóla

Í reglugerðarsafni Stjórnarráðsins er að finna reglugerð um framhaldsskóla nr. 105/1990 sem hefur að geyma ýmis ákvæði um réttindi og ábyrgð nemenda og skólastjórnenda í framhaldsskólum.  Að miklu leyti hafa nýrri lög og reglugerðir komið í stað ákvæða hennar á meðan önnur ákvæði ættu að halda gildi sínu, svo fremi sem þau stangast ekki á við nýrri lög og reglugerðir. Þar sem þessi reglugerð hefur ekki verið felld brott ætti hún því að gilda um þau atriði sem nýrri lagaheimildir fjalla ekki um.

Umboðsmaður barna hefur áhyggjur af brottfalli nemenda úr framhaldsskólum og líðan þessa hóps sem á erfitt með að fóta sig innan framhaldsskólakerfisins. Ítarleg ákvæði um ábyrgð náms- og starfsráðgjafa eru mikilvæg til að þjónusta við þennan hóp sé vönduð og gagnleg og vonar umboðsmaður að ákvæði um náms- og starfsráðgjafa í nýrri reglugerð með heimild í 8. gr. núgildandi laga verði a.m.k. jafn ítarleg og 9. gr. reglugerðar nr. 1100/2007. Þó þarf stundum fleira að koma til en þjónusta náms- og starfsráðgjafa til að tryggja þeim nemendum sem þurfa aðstoð góða og faglega þjónustu þannig að þeim líði vel í skólanum,  geti náð árangri í náminu og tekið þátt í félagslífi skólans.

Umboðsmaður barna vill í þessu sambandi beina eftirfarandi spurningum til ráðuneytisins:

1.       Umboðsmanni barna hefur verið tjáð að til standi að fella reglugerð nr. 105/1990 úr gildi. Farið er fram á að upplýst verði hvort að svo sé eða ekki.

2.       Ef reglugerð nr. 105/1990 verður felld úr gildi vill umboðsmaður barna fá upplýsingar um á hvern hátt ráðuneytið ætli að tryggja nemendum sambærilegan rétt eða betri varðandi eftirfarandi atriði.
     a.        Þjónustu og aðstoð umsjónarkennara sbr. 29. gr. 
     c.        Þjónustu sálfræðinga sbr. 31. gr.
     d.       Aðstoð félagsráðunauts sbr. 34. gr.

3.       Ef reglugerð nr. 105/1990 verður ekki felld brott og heldur því gildi sínu, óskast upplýst hvernig ráðuneytið mun hátta eftirliti með ákvæðum hennar og hvernig hún verður kynnt stjórnendum framhaldsskólanna?

Umboðsmaður barna óskar eftir því að ráðuneytið veiti svör við ofangreindum spurningum svo fljótt sem auðið er.

Virðingarfyllst,

____________________________________________
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna

Eftir nokkrar ítrekanir barst svar frá menntamálaráðuneytinu rúmu ári síðar. Þar segir að farist hafi fyrir að fella reglugerðina formlega úr gildi. Þá segir m.a. að í nýju regluverki eigi ekki að skilgreina skyldur umsjónarkennara gagnvart framhaldsskólanemum enda eigi skólameistarar að semja við kennara um störf, önnur en kennslu, er tengjast þjónustu skólans og samskiptum hans við nemendur. Í bréfinu segir einnig að ekki sé gerlegt að tryggja þjónustu sálfræðinga, eins og reglugerðin sem á að fella brott, kvað á um í 31. gr.

Hér er svar menntamálaráðuneytisins, dagsett 3. október 2011.

Þá sendi umboðsmaður ráðuneytinu eftirfarandi bréf:

 

Mennta- og menningarmálaráðuneytið
b.t. Þóris Ólafssonar
Sölvhólsgötu 4
150 Reykjavík

Reykjavík, 24. október 2011
UB: 1110/6.3.0

Efni: Réttindi nemenda í framhaldsskóla

Umboðsmaður barna þakkar fyrir bréf mennta- og menningarmálaráðuneytisins um réttindi nemenda í framhaldsskóla dagsett 3. október 2011, sem var svar við bréfi umboðsmanns barna til ráðuneytisins, dags. 15. september 2010.

Umboðsmanni barna þykir miður að með nýju regluverki verði nemendum framhaldsskólanna ekki tryggður sami eða betri réttur og fyrra fyrirkomulag átti að tryggja þeim. Ljóst er að ef vilji er fyrir hendi er hægt að draga úr brottfalli og bæta hag nemenda í framhaldsskólum með því að tryggja þeim góða þjónustu. Umboðsmaður skorar því á ráðuneytið að tryggja börnum a.m.k. sambærilegan rétt og reglugerð nr. 105/1990 um framhaldsskóla kveður á um.

Umboðsmaður mun halda áfram að fylgjast með þróun réttinda nemenda í framhaldsskóla og benda á það sem betur má fara enda hefur umboðsmaður áhyggjur af þeim hópi unglinga sem eiga erfitt með að fóta sig í framhaldsskólum landsins.

Virðingarfyllst,
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica