22. september 2011

Kynningar fyrir skóla - Bréf

Umboðsmaður barna hefur sent öllum grunnskólum bréf þar sem boðið er upp á kynningar fyrir nemendur og starfsfólk skólanna. Með bréfinu fylgdu sýnishorn af hurðaspjöldunum Verum vinir sem embættið gaf út í fyrra.

Umboðsmaður barna hefur sent öllum grunnskólum bréf þar sem boðið er upp á kynningar fyrir nemendur og starfsfólk skólanna. Með bréfinu fylgdu sýnishorn af hurðarspjöldunum Verum vinir sem embættið gaf út í fyrra. Svipuð bréf voru send til allra framhaldsskólanna hinn 22. september og til allra leikskóla landsins hinn 9. september.

Bréfið til grunnskólanna er svohljóðandi:

Reykjavík 31. ágúst 2011
 
 
 
Heil og sæl.
 
Undanfarin tvö ár hefur umboðsmaður barna boðið skólum, félagasamtökum og þeim aðilum sem vinna með börnum eða fyrir börn uppá kynningar á embættinu. Reynslan hefur verið góð og margir skólar hafa nýtt sér þetta boð. Á síðasta ári var embættið með 34 kynningar hjá ýmsum aðilum og þar af voru 24 grunnskólar víðs vegar um landið. Áætla má að umboðsmaður barna hafi hitt allt að tvö þúsund börn á þessu tímabili.
 
Hvað gerir umboðsmaður barna?
Umboðsmaður barna er opinber talsmaður fyrir öll börn á Íslandi. Hlutverk hans er að vinna að því að bæta hag barna og unglinga og sjá til þess að tekið sé tillit til réttinda þeirra og hagsmuna á öllum sviðum samfélagsins. Umboðsmaður barna leiðbeinir öllum sem til hans leita um mál sem varða réttindi barna með einum eða öðrum hætti. Umboðsmaður barna vill vita hvað börn eru að hugsa, hvernig þeim líður og hvað þeim finnst um ýmsa hluti sem snerta þau og umhverfi þeirra.
 
Kynning fyrir hópa
Umboðsmaður barna mun halda áfram að bjóða uppá kynningar sem aðlagaðar eru öllum aldurshópum eftir því sem við á hverju sinni. Þeir sem hafa áhuga á að fá kynningu á embætti umboðsmanns barna eða ræða við hann um réttindamál barna og unglinga geta óskað eftir því að umboðsmaður komi á staðinn og haldi erindi og/eða taki þátt í umræðum. Einnig er öllum velkomið að koma á skrifstofu embættisins að Laugavegi 13, 101 Reykjavík. Þeir sem vilja fá kynningu frá umboðsmanni eru beðnir um að hafa samband með því að senda tölvupóst áub@barn.iseða hringja í síma 552 8999. Nánari upplýsingar um umboðsmann barna má finna á heimasíðu embættisins, barn.is.
 
Meðfylgjandi eru hurðarspjöld sem umboðsmaður barna gaf út á árið 2010 og einblöðungur til upplýsinga um tilurð þeirra spjalda og verkefnið „Verum vinir“.
 
Með kærri kveðju,
 
Margrét María Sigurðardóttir
umboðsmaður barna

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica