17. nóvember 2009

Könnun um skólaráð

Til að kanna hvernig grunnskólum landsins miðar í þeirri vinnu að koma á formlegu nemendalýðræði sendi umboðsmaður barna öllum grunnskólum landsins spurningalista í sumar.

Til að kanna hvernig grunnskólum landsins miðar í þeirri vinnu að koma á formlegu nemendalýðræði sendi umboðsmaður barna öllum grunnskólum landsins spurningalista í sumar þar sem skólastjórnendur eru beðnir að svara eftirfarandi spurningum:

• Hefur skólinn komið á fót skólaráði?
• Eru fulltrúar nemenda starfandi í skólaráðinu?
• Hefur skólinn sett sér reglur um val á nemendum í skólaráð?
• Telur þú sem skólastjórnandi þörf á fræðslu til þeirra nemenda sem starfa í skólaráðum?

Auk þessa bað umboðsmaður um nöfn, aldur og netföng þeirra nemenda sem starfa í skólaráðinu til að umboðsmaður geti haft samband við nemendurna og sent þeim upplýsingar og fræðsluefni.

Svörun við spurningalistanum var ekki mjög góð enda var þessi vinna unnin í júní þegar skólar voru að loka fyrir sumarfrí. Umboðsmanni bárust 69 svör frá skólum sem í eru 19.081 nemandi.

Af þessum 69 skólum voru 56 með skólaráð eða um 81%. Nemendur í þeim skólum voru samtals 17.696 eða tæplega 93% af þeim skólum sem svöruðu.
Í 4 skólum af þeim 56 sem starfræktu skólaráð sátu nemendur ekki í ráðinu. Ástæður þess voru helst þær að nemendur kæmu inn í ráðin á nýju skólaári

29 skólar (42%) höfðu þegar sett reglur um inntöku nemenda í ráðin en það stóð til hjá 29 skólum í viðbót.  Í langflestum tilvikum voru reglurnar á þá leið að í ráðinu sætu tveir fulltrúar úr nemendaráði, sjálfkjörnir eða valdir af nemendaráði eða þá að nemendaráðið kaus nemendur úr skólanum til setu í skólaráði. Sumir skólar voru með þær reglur að nemendurnir kæmu úr elstu bekkjum skólans.

43 skólar (62,3%) töldu þörf á fræðslu til nemenda vegna setu þeirra í skólaráðum. Töluðu þá flestir um að fræða þyrfti nemendur um hlutverk þeirra og skyldur í skólaráðum en einnig um fundarsköp og aðkomu barnanna að fundum. Þar sem þetta hefur ekki verið gert áður voru margir óvissir um hvernig fara skyldi að.

Umboðsmaður barna vonar að könnunin hafi ýtt við þeim skólum sem ekki höfðu þegar stofnað skólaráð þegar könnunin var gerð og fengið skólastjórnendur til að huga almennt betur að nemendalýðræði.

Könnunina vann Snorri Rafn Hallsson, 18 ára nemi og fyrrum meðlimur í ungmennaráði Reykjavíkur. Umboðsmaður þakkar Snorra fyrir vel unnin störf hjá embættinu í sumar og það mikilvæga innlegg sem hann kom með í starfið.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica