12. nóvember 2007

Kennslu um kynferðisofbeldi gegn börnum og barnavernd ábótavant í íslenskum háskólum - Úttekt Barnaheilla

Samtökin Barnaheill segja í frétt á vefsíðu sinni, www.barnaheill.is, frá könnun sem þau létu nýlega gera á áherslum í kennslu á háskólastigi fyrir verðandi fagfólk í menntamálum, í félags- og heilbrigðisþjónustu, í dómskerfinu og í löggæslu um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum.

Samtökin Barnaheill segja í frétt á vefsíðu sinni, www.barnaheill.is, frá könnun sem þau létu nýlega gera á áherslum í kennslu á háskólastigi fyrir verðandi fagfólk í menntamálum, í félags- og heilbrigðisþjónustu, í dómskerfinu og í löggæslu um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum.

Fagfólk á fyrrnefndum sviðum er í lykilhlutverki hvað varðar forvarnir og fræðslu á þessu sviði, þekkingu á einkennum barna sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi, meðferð og stuðning við börnin og foreldra þeirra og varðandi meðferðarúrræði og refsingu fyrir gerendur. Góður undirbúningur í námi hlýtur að vera ein af undirstöðum þess að vel takist til í vinnu fagfólks, börnum og samfélaginu til heilla.

Könnunin náði til Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík, Háskólans á Bisfröst, Háskólans á Akureyri og Kennaraháskóla Íslands. Enn fremur var Lögregluskóli ríkisins skoðaður, en sá skóli er ekki á háskólastigi. Skoðuð voru námskeið innan deilda eða brauta, sem útskrifa fólk sem gera má ráð fyrir að eigi eftir að vinna með börnum eða að málefnum þeirra, þ.e. félagsvísindadeildir, lækna- og hjúkrunardeildir, lagadeildir, heilbrigðisdeild, kennaradeildir, lýðheilsudeild og guðfræðideild.

Helstu niðurstöður eru þær að enga heildstæða stefnu um kennslu varðandi kynferðislegt ofbeldi gegn börnum og barnavernd er að finna innan háskólanna. Kennsla á þessu sviði virðist að mestu vera háð áhuga þeirra kennara sem þar starfa. Einnig má nefna að hvergi var vart við umfjöllun um þátt Netsins í kynferðislegu ofbeldi gegn börnum.

Barnaheill telja mikilvægt að mótuð verði stefna í kennslu varðandi kynferðislegt ofbeldi gegn börnum og vilja taka þátt í samstarfi þar að lútandi.

Barnaheill leggja áherslu á að:

1. Mörkuð verði heildstæð stefna í háskólum í kennslu um barnavernd og kynferðislegt ofbeldi gegn börnum. Kennslan um þessi mikilvægu málefni er of dreifð og of tilviljanakennd eins staðan er um þessar mundir.

2. Háskóladeildir bjóði námskeið þar sem fjallað er um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum sérstaklega og það komi fram í kennsluskrá. Skorarformenn og brautarstjórar eru í lykilstöðu til að hafa áhrif á hvað er kennt í þeirra skor eða braut.

3. Rannsóknir um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum verði efldar. Auknar rannsóknir á þessu sviði leiða til aukinnar umfjöllunar í kennslu bæði með beinum og óbeinum hætti. Ekki síst er mikilvægt að gera rannsókn á upplifun barnanna og forráðamanna varðandi greiningu og stuðning og fá þeirra hugmyndir um hvernig má bæta þjónustu á þessu sviði.

4. Útgáfa á íslensku efni um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum verði aukin. Framboð á námsefni er grundvöllur þess að kennsla geti farið fram.

5. Aukin samvinna háskóla og frjálsra félagasamtaka. Frjáls félagasamtök sem hafa sérstaklega unnið með kynferðislegt ofbeldi gegn börnum búa gjarnan yfir mikilli sérþekkingu og reynslu sem gæti nýst vel í kennslu á háskólastigi.

Könnunina er hægt að nálgast í heild sinni með því að smella
hér.

Umboðsmaður barna vonar að þetta framtak samtakanna verði til þess að kennsla og umfjöllun um kynferðisofbeldi gegn börnum verði aukin í þeim deildum háskólanna sem fjalla um málefni barna og unglinga.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica