3. janúar 2012

Innritunarreglur í framhaldsskóla skortir lagastoð

Umboðsmaður Alþingis hefur komist að þeirri niðurstöðu, að regla sem menntamálaráðherra ákvað að yrði fylgt við innritun nemenda í framhaldsskóla á skólaárinu 2010/2011 hefði ekki haft lagastoð.

Umboðsmaður Alþingis hefur komist að þeirri niðurstöðu, að regla sem menntamálaráðherra ákvað að yrði fylgt við innritun nemenda í framhaldsskóla á skólaárinu 2010/2011 hefði ekki haft lagastoð.

Í niðurstöðu umboðsmanns Alþingis (mál nr. 5994/2010 og 6009/2010) segir:

A og B, nemendur í 10. bekk grunnskóla, leituðu til umboðsmanns Alþingis og kvörtuðu yfir því að mennta- og menningarmálaráðherra hefði ákveðið að skólaárið 2010/2011 yrðu a.m.k. 45% lausra plássa í framhaldsskólum tekin frá fyrir nemendur í forgangshópi, þ.e. nemendur sem kæmu úr grunnskólum sem væru tilgreindir sem forgangsskólar hvers framhaldsskóla og væru yfirleitt staðsettir í nágrenni hans. Þar sem grunnskólanemar sækja að jafnaði grunnskóla í næsta nágrenni við heimili sitt réðst forgangur nemenda því í reynd í mörgum tilvikum af búsetu. Það var þó ekki einhlítt. Í kvörtun A kom fram að hún teldi innritunarreglurnar fela í sér mismunun á grundvelli búsetu og brjóta í bága við jafnræðisreglur. Hún benti á að framhaldsskólar væru ekki allir sambærilegir og að í þeim væri ekki sama námsframboð. Í kvörtun B kom fram að hún teldi innritunarreglurnar ekki byggjast á málefnalegum sjónarmiðum. Með þeim væri réttur nemenda til valfrelsis skertur og þeim mismunað á ómálefnalegum forsendum. Hún benti á að framhaldsskólar væru ólíkir að hún hefði t.d. hug á að stunda nám í bekkjarkerfi.

Umboðsmaður taldi að af forgangsreglu ráðherra leiddi að möguleikar nemenda, sem ekki hefðu stundað nám í forgangsskólum hlutaðeigandi framhaldsskóla, til þess að velja sér framhaldsskóla og fá inngöngu í þann skóla yrðu í reynd takmarkaðri en áður og réðust ekki í sama mæli af námsárangri í grunnskóla og öðrum undirbúningi fyrir framhaldsnám. Umboðsmaður benti jafnframt á að í lögum og framkvæmd væri gengið út frá því að í framhaldsskólum væru starfandi mismunandi námsbrautir og viðhaft mismunandi námsfyrirkomulag. Forgangsreglan hefði því þau áhrif að munur gæti orðið á efni og inntaki þeirrar opinberu þjónustu sem einstaklingum, sem kynnu að einhverju leyti að vera í sambærilegri lagalegri stöðu, t.d. að því er varðar námsárangur í grunnskóla, stæði til boða. Athugun umboðsmanns beindist því einkum að því hvaða lagaheimildir þyrftu að vera fyrir hendi til þess að heimilt væri að mæla fyrir um misjafnan rétt borgaranna, m.a. á grundvelli búsetu til að nýta þá opinberu þjónustu, og þar með opinber fjárframlög, sem felst í framhaldsskólanámi.

Niðurstaða umboðsmanns Alþingis er svohljóðandi:

Það er niðurstaða mín að sú regla sem mennta- og menningarmálaráðherra ákvað að fylgt skyldi við innritun nemenda í framhaldsskóla skólaárið 2010/2011 um að 45% lausra plássa skyldu tekin frá fyrir nemendur í forgangi, þ.e. nemendur tiltekinna grunnskóla sem voru forgangsskólar viðkomandi framhaldsskóla, hafi ekki verið sett samkvæmt viðhlítandi stoð í lögum nr. 92/2008, um framhaldsskóla. Ég tek fram að þær breytingar sem gerðar voru á forgangsreglunni við innritun á haustönn 2011 hafa ekki bætt úr þessum annmarka. Ég kem jafnframt þeirri ábendingu á framfæri við mennta- og menningarmálaráðherra, með hliðsjón af 11. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að sérstaklega verði hugað að lagagrundvelli og stjórnskipulegu samhengi þeirra reglna sem ráðuneytið telur þörf á að setja um innritun nemenda í framhaldsskóla og um forgang tiltekinna hópa í því sambandi. Þar þarf að gæta að þeim lagaáskilnaði sem fram kemur í 2. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar um að öllum skuli í lögum tryggður réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi. Jafnframt beini ég þeim tilmælum til ráðuneytisins að það hugi betur að því í framtíðinni í hvaða búning það setur fyrirmæli sín. Þá er það niðurstaða mín að ráðuneytið þurfi að gæta betur að því að birta tilkynningar um breytta stjórnsýsluframkvæmd við innritun nemenda í framhaldsskóla með hæfilegum fyrirvara.

Sjá hér niðurstöðu umboðsmanns Alþingis (mál nr. 5994/2010 og 6009/2010).


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica