18. október 2012

Hvernig hefur börnum vegnað í meðferð? - Könnun

Áhugaverðar niðurstöður koma fram í könnun sem gerð var um afdrif, velferð og líðan barna sem dvöldu á níu meðferðarheimilum Barnaverndarstofu og Stuðlum á árunum 2000 – 2007.

Áhugaverðar niðurstöður koma fram í könnun sem gerð var um afdrif, velferð og líðan barna sem dvöldu á níu meðferðarheimilum Barnaverndarstofu og Stuðlum á árunum 2000 – 2007.

Rannsóknastofnun í barna- og fjölskylduvernd (RBF) vann afdrifakönnunina fyrir Barnaverndarstofu og kynnti niðurstöður í Háskóla Íslands hinn 5. október 2012. Um var að ræða símakönnun sem gerð var í tveimur hlutum á árunum 2010 og 2011. Af 545 einstaklingum sem dvöldu í meðferð á tímabilinu 2000-2007 svöruðu 293 einstaklingar könnuninni. Foreldrar voru einnig spurðir og svöruðu 332. 

Sú reynsla sem börn og foreldrar miðla af meðferðarheimilunum má almennt teljast jákvæð en 65% foreldra og 59% barna fannst meðferðin hjálpa þeim mjög vel eða vel að takast á við þann vanda sem barnið glímdi við. 90% barnanna sögðust hafa náð góðu sambandi við að minnsta kosti einn starfsmann meðan á dvölinni stóð. Þátttaka á vinnumarkaði og skólaganga í dag er heldur lakari en meðal jafnaldra en margir þátttakenda í könnuninni glímdu við alvarlegan náms- og skólavanda í grunnskóla sem var hluti þess hegðunarvanda sem leiddi til vistunar á stofnun. Aðeins tæpur fjórðungur eða 23% nutu eftirmeðferðar eða skipulagðar eftirfylgdar í kjölfar vistunar á meðferðarheimili. Tæpur helmingur hefur leitað sér aðstoðar vegna áfengis og vímuefnavanda eftir að meðferð lauk og rúmur helmingur vegna tilfinningalegra og geðrænna erfiðleika. Um 41% drengja og 18% stúlkna segjast hafa setið í gæsluvarðhaldi eða fangelsi sem er mjög há tala og því líklegt að hér hafi svarendur einnig vísað í fleiri tegundir lögregluafskipta, svo sem handtökur.

Fjallað er um niðurstöðurnar á síðu Barnaverndarstofu


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica