15. janúar 2014

Hvað ætti að vera fjallað um í fjölskyldustefnu? - Minnisblað

Umboðsmanni barna var boðið á fund verkefnisstjórnar sem vinnur að mótun fjölskyldustefnu. Tilgangurinn var að ræða hvað ætti helst að fara inn í fjölskyldustefnu, hvað væri vel gert og hvað þyrfti að efla. Hinn 15. janúar sendi umboðsmaður nefndinni neðangreint minnisblað um það sem helst var rætt um.

Umboðsmanni barna var boðið á fund verkefnisstjórnar sem vinnur að mótun fjölskyldustefnu. Tilgangurinn var að ræða hvað ætti helst að fara inn í fjölskyldustefnu, hvað væri vel gert og hvað þyrfti að efla. Fundurinn fór fram í velferðarráðuneytinu 13. janúar. Hinn 15. janúar sendi umboðsmaður nefndinni neðangreint minnisblað um það sem helst var rætt um en auk þess sendi hann afrit af nokkrum bréfum umboðsmanns barna og annarra opinberra aðila. 

Hvað ætti að vera fjallað um í fjölskyldustefnu?
Minnisblað frá umboðsmanni barna vegna fundar með verkefnisstjórn sem falið hefur verið að móta fjölskyldustefnu til ársins 2020, sent 15. janúar 2014

1. Réttindi barna
Umboðsmaður barna fagnar því að verið sé að vinna að fjölskyldustefnu. Mikilvægt er að slík stefna taki mið Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Má í því sambandi benda á að Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur bent á að það skorti verulega heildstæða stefnumótun í málefnum barna hér á landi. Umboðsmaður barna vill benda á mikilvægi þess að fjölskyldustefnan miði fyrst og fremst að því að tryggja réttindi barna, enda eiga hagsmunir barna að hafa forgang við allar ákvarðanir sem varða börn, sbr. 3. gr. Barnasáttmálans. Það þýðir að þegar réttindi barna og foreldra vegast á eiga hagsmunir barna að ganga framar.

Sérstaklega er mikilvægt að taka tillit til 12. gr. Barnasáttmálans sem tryggir börnum rétt á að hafa áhrif á öll mál sem þau varða. Umboðsmaður telur mikilvægt að leita eftir sjónarmiðum barna við mótun fjölskyldustefnunnar. Auk þess er mikilvægt að stefnan miði að því að tryggja að börn fái ávallt tækifæri til að hafa áhrif þegar teknar eru ákvarðanir um málefni sem varða þau.

Umboðsmaður barna telur brýnt að nákvæm aðgerðaráætlun muni fylgja fjölskyldustefnunni. Þá er mikilvægt að taka sérstaklega fram hver ber ábyrgð á hvaða lið og fyrir hvaða tíma hann á að koma til framkvæmda. Loks þarf að tryggja  að nauðsynlegt fjármagn fylgi með hverjum þætti aðgerðaráætlunarinnar. 


2. Mikilvægt að eyða óvissu
Umboðsmaður barna telur mikilvægt að fjölskyldustefnan miði að því að eyða þeirri óvissu sem hefur ríkt undanfarið um málefni barna og fjölskyldna þeirra. Mikilvægt er að gera raunhæfar áætlanir sem ætlunin er að fylgja eftir.

Umboðsmaður barna telur það óásættanlegt að verið sé að samþykkja lög eða gefa út yfirlýsingar sem ekki er fylgt eftir. Sem dæmi um slíkt má nefna tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í barnavernd til 2014 sem samþykkt var á Alþingi í mars 2013 þrátt fyrir að ljóst væri að mikilvægir hlutar áætlunarinnar gætu ekki komið til framkvæmda og ekki hafi verið tryggt fjármagn í aðra. Sem dæmi um lög sem hafa verið dregin til baka að undanförnu má nefna lög um lengingu fæðingarorlofs og lög um úrræði á vegum ríkisins fyrir börn sem geta ekki búið heima hjá sér vegna vanrækslu. Þá þarf að fylgja því eftir að úrbætur sem eru samþykktar nái tilgangi sínum. Umboðsmaður telur til dæmis þurfa fylgja því eftir að börnum sé raunverulega tryggð gjaldfrjáls tannlæknaþjónusta. Í framkvæmd virðast ákvæðin hafa verið túlkuð þröngt þegar kemur að þjónustu við börn með bráðavanda sem búa við erfiðar félagslegar aðstæður.


3. Barnavernd
Umboðsmaður barna telur brýnt að fjölskyldustefna taki sérstakt tillit til þeirra fjölskyldna sem þurfa á stuðningi að halda, hvort sem það er vegna vanda foreldra eða barna sem stefna eigin velferð í hættu. Eins og staðan er nú er mikið álag á barnaverndarnefndum landsins og hver starfsmaður þarf að sinna mun fleiri málum en gengur og gerist í þeim löndum sem við viljum helst bera okkur saman við. Þarf því að efla barnaverndina töluvert til þess að hægt sé aðstoða allar þær fjölskyldur sem þurfa.

Nauðsynlegt er að fjölskyldustefna miði að því að tryggja nægileg úrræði innan barnaverndarinnar. Eins og staðan er nú skortir verulega upp á úrræði fyrir börn sem stefna eigin velferð í hættu vegna vímuefnaneyslu eða afbrota. Þetta stefnir oft ekki einungis velferð þeirra sjálfra í hættu heldur einnig til dæmis annarra barna á heimilinu.

Umboðsmaður barna telur mikilvægt að fjölskyldustefna taki á því hvernig hægt er að efla foreldrafærni. Verðandi foreldrum þarf að vera ljóst að aðstoð standi til boða. Sérstaklega er mikilvægt að bjóða upp á uppeldisnámskeið fyrir foreldra. Kynna þarf slík námskeið sérstaklega fyrir ungum foreldrum, foreldrum sem koma frá öðrum menningarheimum og öðrum foreldrum sem þurfa aukna aðstoð eða fræðslu.


4. Heimilisofbeldi
Umboðsmaður barna  telur sérstaklega mikilvægt að tryggja aukna þjónustu við börn og fjölskyldur vegna ofbeldis innan veggja heimilisins. Umboðsmaður barna hefur áhyggjur af skorti af úrræðum fyrir börn sem búa við slíkt ofbeldi. Barnaverndarstofa var með úrræði sem fólst í því að sérfræðingur fór með lögreglu á heimili þegar hún var kölluð til vegna heimilisofbeldis. Þá var einnig í boði hópmeðferð fyrir börn sem höfðu búið við ofbeldi. Því miður virðist ekki hafa verið tryggt fjármagn til þess að halda þessum verkefnum áfram. Umboðsmaður barna vonar að stækkun Barnahúss muni leiða til þess að verksvið þess verði víkkað út, þannig að það veiti börnum sem hafa orðið fyrir hvers kyns ofbeldi þjónustu.

Umboðsmaður barna telur mikilvægt að efla fræðslu og forvarnir um hvers kyns ofbeldi – hvort sem það er andlegt, líkamlegt eða kynferðislegt.


5. Börn með sérþarfir

Eitt af þeim málum sem hefur einna helst brunnið á umboðsmanni barna undanfarið er málefni barna með sérþarfir. Verulega hefur dregið úr þjónustu við börn sem eru fötluð eða glíma við geðræn vandamál. Löng bið er eftir þjónustu t.d. á BUGL. Þá hafa Greiningarstöðin og Þroska- og hegðunarmiðstöðin þurft að takmarka verksvið sitt – þannig að mörg börn fá ekki þá þjónustu sem þau þurfa.

Mörg börn sem eru á svokölluðu „gráu svæði“ fá ekki þá þjónustu sem þau þurfa, hvorki innan heilbrigðiskerfisins né í skólum. Rétt greining virðist því miður vera forsenda þess að hægt sé að veita ákveðna aðstoð. Slíkt kerfi tekur ekki tillit til þess að mörg börn þurfa aðstoð þó þau falli ekki beinlínis inn í ákveðin greiningarviðmið. Þá þurfa önnur börn að bíða lengi eftir greiningu.

Umboðsmaður barna telur mikilvægt að fjölskyldustefna miði að því að tryggja öllum börnum þá þjónustu sem þau þurfa. Þá er brýnt að hægt sé að bregðast við sem fyrst, til þess að vandinn verði ekki enn alvarlegri.

Heilbrigðis- og félagsmálakerfið þurfa að vinna saman – þannig að ekki sé ágreiningur um hvar barn á að fá þjónustu. Dæmi eru um að barn með geðræn vandamál fái ekki þá þjónustu sem það þarf í heilbrigðiskerfinu og endar því í barnaverndarkerfinu.

Mikilvægt að efla stuðning við foreldra barna sem eru langveik eða alvarlega fötluð. Dæmi um að umönnunarbætur séu skertar af ýmsum ástæðum og að foreldrar geti ekki sinnt börnum sínum eins og þeir myndu vilja.


6. Þjónusta í nærumhverfi
Umboðsmaður barna telur brýnt að efla þjónustu í nærumhverfi barna. Sem dæmi um það má nefna mikilvægi þess að bjóða upp á gjaldfrjálsa sálfræðiþjónustu og fjölskylduráðgjöf. Í sumum sveitarfélögum er slík þjónusta í boði en öðrum ekki. Börnum er því mismunað eftir búsetu að þessu leyti.

Þjónusta í nærumhverfi getur getur komið í veg fyrir að börn þrói með sér alvarlegri vandamál. BUGL hefur til dæmis byggt upp sérhæfð teymi sums staðar á landinu og hefur það reynst vel.

Ljóst er að börnum er mismunað eftir búsetu á ýmsum sviðum, þar sem þjónusta við börn er mismunandi eftir sveitarfélögum. Það þarf að vera virkari samanburður á milli sveitarfélaga svo hægt sé að tryggja jafnræði barna, óháð búsetu.


7. Stuðningur við efnaminni fjölskyldur
Fjölskyldustefna ætti að mati umboðsmanns barna að miða að því að styðja betur við efnaminni fjölskyldur. Skuldir og fjárhagsstaða foreldra mega ekki bitna á börnum. Fátækt er því miður mikil hindrun fyrir mörg börn á Íslandi.

Börnum er mismunað vegna fjárhagsstöðu foreldra en það samræmist illa 2. gr. Barnasáttmálans. Börn hafa t.d. ekki sömu tækifæri til tómstunda. Þá eru dæmi um að börn missi pláss í leikskólum eða á frístundaheimilum vegna skulda foreldra. 


8. Börn af erlendum uppruna
Fjölskyldustefna þarf að miða að því að tryggja stuðning og aðstoð til foreldra sem eiga erfitt með að berjast fyrir réttindum barna sinna -– hvort sem það er vegna tungumáls eða félagslegra erfiðleika. Það er því miður oft raunin að þau börn sem eiga foreldra sem geta barist í kerfinu fá meiri aðstoð og þjónustu en önnur börn. 

Í fjölskyldustefnu þarf að taka sérstakt tillit til barna og fjölskyldna af erlendum uppruna. Sérstaklega er mikilvægt að tryggja fræðslu og ráðgjöf til foreldra.


9. Samhæfing fjölskyldu- og atvinnulífs
Umboðsmaður barna telur að þörf sé á því að lengja fæðingarorlof, eins og áður stóð til. Þá þarf fæðingarorlofskerfið að vera hvetjandi þannig að báðir foreldrar séu líklegir til að nýta rétt sinn.

Vinnudagurinn er of langur, bæði fyrir börn og foreldra. Langflest börn eru meira en 7 klukkutíma á dag í leikskóla og mörg allt að 9 tíma.


10. Margbreytilegar fjölskyldur
Umboðsmaður barna telur nauðsynlegt að fjölskyldustefna takið mið af því að fjölskyldur eru margbreytilegar. Lög og lagaframkvæmd þurfa að taka tillit til þeirra breytinga sem hafa átt sér stað á undanförnum áratugum.

Til stendur að breyta skráningakerfi Þjóðskrár þannig að auðvelt verði að sjá hverjir fara með forsjá barns. Umboðsmaður barna telur að slíkar breytingar þurfi að eiga sér stað sem fyrst, enda væri slíkt til verulegrar hagræðingar fyrir börn og þá sem vinna með börnum.

Þó að umboðsmaður barna telji það ekki í samræmi við bestu hagsmuni barnsins að barn geti átt tvö lögheimili telur hann nauðsynlegt að bregðast við breyttum veruleika barna með öðrum hætti. Þannig þarf að breyta sérlögum þannig að ekki sé ávallt miðað við lögheimili barns, t.d. þegar það kemur að úthlutun hjálpartækja.


11. Barnalögin 
Mikilvægar breytingar voru gerðar á barnalögum nr. 76/2003 í janúar 2013, sbr. lög nr. 61/2012. Umboðsmaður sendi nýlega bréf til allra sýslumannsembætta til að fá upplýsingar um framkvæmd umræddra breytinga, en af svörunum er ljóst að mörg embætti hafa áhyggjur af því að ekki verði tryggt nægilegt fjármagn til að breytingarnar nái tilgangi sínum. Umboðsmaður barna telur mikilvægt að fylgja eftir þeim breytingum sem hafa verið gerðar á barnalögum með auknu fjármagni og reglulegri fræðslu til sýslumannsembætta.


12. Fræðsla

Eins og fram hefur komið í mörgum liðum hér að framan þarf að efla fræðslu til foreldra og þeirra sem vinna með börnum, t.d. um margbreytileika fjölskyldna, foreldrafærni, uppeldi, ofbeldi o.s.frv.

Auka þarf fræðslu og skilning á ýmsum vandamálum sem fjölskyldur glíma við, t.d. geðræna sjúkdóma og áfengis- og vímuefnavandamál. Þöggun getur haft neikvæð áhrif á líf þeirra barna sem búa við slík vandamál.

Að lokum vill umboðsmaður barna árétta mikilvægi þess að fjölskyldustefnunni verði raunverulega fylgt eftir.

Mikilvægt er að hagsmunir barna verði hafðir að leiðarljósi og að tekið verði tillit til sjónarmiða þeirra við gerð og framkvæmd stefnunnar.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica