20. mars 2024

hljóðvist í skólum

Embættið hefur sent bréf til allra sveitarfélaga með hvatningu um að huga að bættri hljóðvist í skólum. 

Bréfið er dagsett 18. mars og er sent í kjölfar málþings sem haldið var í tilefni af alþjóðlegum degi heyrnar. 

Hljóðvist í skólum

Sent til allra sveitarfélaga landsins þann 18. mars 2024. 

Umboðsmaður barna, embætti landlæknis, Heyrnar- og talmeinastöð ríkisins og Vinnueftirlitið stóðu nýverið að málþingi í tilefni af alþjóðlegum degi heyrnar þann 3. mars. Á málþinginu var sjónum beint að hljóðvist í umhverfi barna og var sérstaklega rætt um hljóðvist í skólum. Litið var til hljóðmælinga sem Vinnueftirlitið hefur framkvæmt, sem sýna að bæta þarf hljóðvist í skólum, á öllum skólastigum. Einnig kom fram að ómtími í opnum rýmum, svo sem matsölum, íþróttasölum og stórum kennslurýmum er víðast hvar of langur, sem magnar hávaða og getur skaðað heyrn barna og starfsfólks. Þá sýna rannsóknir að kennarar upplifa hávaða sem algengasta álagsþáttinn í starfi sínu.

Af þessu tilefni vill umboðsmaður barna skora á sveitarfélög landsins að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að bæta hljóðvist í leik- og grunnskólum. Samkvæmt 24. gr. Barnasáttmálans, sem lögfestur var hér á landi með lögum nr. 19/2013, eiga börn rétt á að njóta besta heilsufars sem hægt er að tryggja, og að lifa í heilnæmu og öruggu umhverfi. 

Góð hljóðvist í skólaumhverfi barna eykur gæði náms, bætir námsárangur, einbeitingu, félagslega- og andlega líðan barna og kennara og hefur jákvæð áhrif á skólastarf almennt. Þá getur slæm hljóðvist verið félagslega einangrandi og valdið heyrnartapi og líkamlegri vanlíðan, einkum meðal ákveðinna hópa barna. 

Ljóst er að víða standa nú yfir miklar endurbætur á skólahúsnæði vegna mygluvanda. Með einföldum og kostnaðarlitlum aðgerðum er unnt að bæta hljóðvist til muna, t.d. með hljóðísogandi lofta- og veggplötum. Með tilliti til þess sem að framan hefur verið rakið hvetur umboðsmaður barna sveitarfélög landsins til að huga að bættri hljóðvist í skólum, jafnt í þeim skólum þar sem fyrirhugaðar eru framkvæmdir sem og öðru skólahúsnæði, til samræmis við ákvæði Barnasáttmálans.

Virðingarfyllst, 

Salvör Nordal, umboðsmaður barnaHafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica