14. apríl 2008

Hljóðvist í kennsluhúsnæði - þingsályktunartillaga

Lögð hefur verið fyrir Alþingi þingsályktunartillaga um bætta hljóðvist og aðgerðir til að draga úr erilshávaða í kennsluhúsnæði. Umboðsmaður barna fagnar framkominni þingsályktunartillögu og hvetur til aðgerða á þessu sviði

Lögð hefur verið fyrir Alþingi þingsályktunartillaga um bætta hljóðvist og aðgerðir til að draga úr erilshávaða í kennsluhúsnæði. Flutningsmenn eru Þuríður Backman, Guðbjartur Hannesson, Siv Friðleifsdóttir, Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir, Magnús Stefánsson og Alma Lísa Jóhannsdóttir.

Þingsályktunartillagan er svohljóðandi:

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa starfshóp sem fái það verkefni að leita leiða til að tryggja að erilshávaði í skólarýmum verði innan þeirra marka að geta talist hættulaus fyrir rödd og heyrn nemenda og kennara. Í þeim tilgangi verði hópnum falið að kanna hvort ástæða er til að semja reglugerð eða gera tillögur að lagabreytingum. Einnig skal hann setja fram tillögur um hvernig opinberu eftirliti verði fyrir komið svo að ákvæðum laga og reglugerða verði framfylgt.
    Starfshópurinn verði skipaður einum fulltrúa heilbrigðisráðuneytis, einum fulltrúa félags- og tryggingamálaráðuneytis, einum fulltrúa menntamálaráðuneytis, einum fulltrúa umhverfisráðuneytis, tveimur fulltrúum tilnefndum af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og einum fulltrúa tilnefndum af Heyrnar- og talmeinastöð Íslands. Niðurstöður hópsins verði kynntar Alþingi fyrir árslok 2008.

Sjá greinargerð og fylgiskjöl hér (þskj. 850 - 549. mál) á vef Alþingis.

Hljóðvist í leik- og grunnskólum er sérstakt áhyggjuefni að mati umboðsmanns barna og kom umboðsmaður ábendingum um að huga þurfi að hljóðvist í leik- og grunnskólum á framfæri við þær nefndir sem unnið hafa að endurskoðun laga um þau skólastig.
 
Í janúar og maí 2007 átti umboðsmaður barna fundi með þeim Ólafi Hjálmarssyni, verkfræðingi og dr. Valdísi I. Jónsdóttur, heyrnar-, tal- og raddmeinafræðingi. Á fundunum lýstu þau yfir áhyggjum af hljóðvist í leik- og grunnskólum enda hafi mælingar Vinnueftirlits ríkisins ítrekað sýnt að hávaði sé þar yfir hættumörkum og ljóst væri að ákvæði byggingarreglugerðar nr. 441/1998, reglugerðar um hávaða nr. 933/1999 og reglugerðar um varnir gegn álagi vegna hávaða á vinnustöðum nr. 921/2006 séu þverbrotin í þessu efni.
 
Í júní 2007 ritaði umboðsmaður menntamálaráðherra bréf þar sem ráðherra er hvattur til þess að taka hljóðvist í leik- og grunnskólum til sérstakrar athugunar. Þá telur umboðsmaður rétt að gefa út samræmdar leiðbeiningar um þetta efni fyrir hönnuði og rekstraraðila skóla með sama hætti og gert hefur verið um lýsingu í skólum. Athyglisvert er að í mælingum Vinnueftirlitsins sem fram hafa farið á Akureyri og í Reykjavík hafa nýjustu leik- og grunnskólarnir jafnvel komið ver út en þeir eldri. Það er því brýn þörf á að taka á þessu máli.

Umboðsmaður barna fagnar því framkominni þingsályktunartillögu og hvetur til aðgerða á þessu sviði.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica