18. ágúst 2011

Hagsmunir leikskólabarna

Umboðsmaður barna brýnir fyrir þeim aðilum sem standa að samningsgerð um kjör leikskólakennara að þeir bera ríka samfélagslega skyldu til að ná samningum svo að ekki komi til verkfalls. Leikskólabörn eiga að geta notið góðs af faglegu starfi í leikskólum landsins, þar sem grunnur er lagður að menntun barna og félagsþroska.

Umboðsmaður barna hefur miklar áhyggjur af yfirvofandi verkfalli leikskólakennara og vill því koma eftirfarandi á framfæri:

Í daglegu lífi barna á aldrinum tveggja til sex ára skipta stöðugleiki og festa miklu máli. Dvöl barna á leikskóla spilar stórt hlutverk í að stuðla að þessum mikilvægu þáttum. Ef til verkfalls leikskólakennara kemur missa börnin þessa kjölfestu sem leikskólinn er. Aðstæður fjölskyldna í samfélaginu eru mismunandi og þó að mörg börn eigi góða að, sem hafa möguleika á að gæta þeirra og kenna á meðan verkfalli stendur, á það því miður ekki við um öll börn. 

Umboðsmaður barna brýnir fyrir þeim aðilum sem standa að samningsgerð um kjör leikskólakennara að þeir bera ríka samfélagslega skyldu til að ná samningum svo að ekki komi til verkfalls. Leikskólabörn eiga að geta notið góðs af faglegu starfi í leikskólum landsins, þar sem grunnur er lagður að menntun barna og félagsþroska.  Í þessu sambandi vill umboðsmaður minna á 3. gr. Barnasáttmálans sem kveður á um að allar ákvarðanir eða ráðstafanir sem varða börn skulu byggðar á því sem er börnum fyrir bestu.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica