16. nóvember 2009

Grunnskólar og nemendafélög hvött til að halda upp á afmæli Barnasáttmálans

Umboðsmaður barna, Barnaheill og UNICEF hafa sent tölvupóst til skólastjóra og nemendafélaga í öllum grunnskólum landsins þar sem þau eru hvött til að halda upp á afmæli Barnasáttmálans.

Umboðsmaður barna, Barnaheill og UNICEF hafa sent tölvupóst til skólastjóra og nemendafélaga í öllum grunnskólum landsins þar sem þau eru minnt á mikilvægi Barnasáttmálans og hvött til að halda upp á 20 ára afmæli hans sem er á föstudaginn næstkomandi, 20. nóvember. Í bréfinu segir meðal annars:

Umboðsmaður barna, UNICEF og Barnaheill vilja hvetja alla skóla í landinu til þess að halda sérstaklega upp á þessi merkilegu tímamót, enda skiptir Barnsáttmálinn miklu máli fyrir öll börn í heiminum. Hægt er að halda upp á afmælið með ýmsum hætti, svo sem með því að halda afmælisveislu, tónleika, myndlista- eða ljósmyndasýningu, vinna verkefni um sáttmálann eða kynna hann í skólanum með einhverjum hætti.

Endilega sendið tölvupóst á ub@barn.is eða hringið í síma 552-8999 ef þið viljið fá frekari upplýsingar eða hugmyndir. Við getum líka sent ykkur  veggspjöld eða bæklinga um Barnasáttmálann ef þið viljið það.

Þeir skólar sem ákveða að halda upp á afmæli Barnasáttmálans eru sérstaklega hvattir til þess að láta okkur vita og taka myndir.

Bestu kveðjur,

Umboðsmaður barna

Barnaheill

UNICEF


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica