15. janúar 2024

Grindavík

Umboðsmaður barna sendir íbúum Grindavíkur hlýjar og hugheilar kveðjur vegna þeirra hamfara sem nú ganga yfir. 

Umboðsmaður barna sendir íbúum Grindavíkur hlýjar og hugheilar kveðjur vegna þeirra hamfara sem nú ganga yfir. Um leið vill umboðsmaður minna á að mikilvægt er að hlúa sérstaklega að börnum og fjölskyldum og skapa öryggi, stöðugleika og ró í umhverfi þeirra á þeim tíma sem framundan er.

Áhrif þessara atburða á líf grindvískra barna eru mikil og ljóst er að þessar hamfarir hafa í för með sér mikla óvissu, sálrænt álag og ófyrirséðar afleiðingar fyrir alla íbúa bæjarins. Mikilvægt er að ræða við börn um líðan þeirra og upplifun, veita þeim upplýsingar í samræmi við aldur þeirra og þroska og leggja mat á bestu hagsmuni barna við allar ákvarðanir sem teknar eru.

Það er einlæg von umboðsmanns barna að börn og fjölskyldur þeirra fái allan þann stuðning sem nauðsynlegur er til þess að vinna úr því áfalli sem þessar hamfarir hafa í för með sér og til að takast á við þá erfiðu stöðu sem nú blasir við. Hugur embættisins er nú sem áður hjá börnum úr Grindavík og fjölskyldum þeirra. 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica