28. desember 2012

Greiðsla tryggingabóta frá tryggingafélögum til barna - Bréf

Umboðsmanni barna barst á árinu erindi þess efnis að foreldri fékk greiddar tryggingabætur f.h. barns og fór illa með þá fjármuni þannig að bæturnar skiluðu sér ekki til barnsins. Í kjölfarið sendi umboðsmaður barna bréf til sex tryggingafélaga á Íslandi til að kanna hvernig staðið er að greiðslu tryggingabóta sem börn eiga rétt á vegna tjóns sem þau hafa orðið fyrir. Niðurstöður þessarar könnunar hafa verið kynntar innanríkisráðherra og tryggingarfélögunum.

Umboðsmanni barna barst á árinu erindi þess efnis að foreldri fékk greiddar tryggingabætur f.h. barns og fór illa með þá fjármuni þannig að bæturnar skiluðu sér ekki til barnsins. Í kjölfarið sendi umboðsmaður barna bréf til sex tryggingafélaga á Íslandi til að kanna hvernig staðið er að greiðslu tryggingabóta sem börn eiga rétt á vegna tjóns sem þau hafa orðið fyrir. Niðurstöður þessarar könnunar hafa verið kynntar innanríkisráðherra (sem yfirmanni sýslumanna) og tryggingarfélögunum með bréfum sem birt eru hér að neðan.

Innanríkisráðuneytið
b.t. Ögmundar Jónassonar
Sölvhólsgötu 7
150 Reykjavík

Reykjavík, 5. desember 2012
UB: 1212/10.2

Efni: Greiðsla tryggingabóta frá tryggingafélögum til barna

Í september þessa árs sendi umboðsmaður barna bréf til sex tryggingafélaga á Íslandi til að kanna hvernig staðið er að greiðslu tryggingabóta vegna tjóns sem börn verða fyrir. Ástæða bréfsins var erindi sem umboðsmanni barst þar sem foreldri fékk greiddar tryggingabætur fyrir hönd barns sem varð fyrir tjóni og fór illa með þá fjármuni þannig að bæturnar skiluðu sér ekki til barnsins.

Í bréfi umboðsmanns barna var m.a. spurt hvort tryggingafélög tilkynntu yfirlögráðanda þegar bætur höfðu verið greiddar. Í svörum félaganna kom fram að yfirlögráðanda er alltaf tilkynnt í þeim tilfellum þegar við á, sbr. 73. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Fagnar umboðsmaður því. Að gefnu tilefni telur umboðsmaður barna þó ástæðu til að vekja athygli ráðherra á því kerfi sem snýr að fjármunum barna sem virðist ekki vera nægilega öruggt og því hætta á því að fjármunir barna séu ekki tryggðir til hagsbóta fyrir börn í ákveðnum tilvikum.

Meðfylgjandi er afrit af bréfi sem umboðsmaður barna sendi til tryggingarfélaga í kjölfar athugunar hans.

Ef nánari upplýsinga er óskað er ávallt velkomið að hafa samband í síma 552 8999 eða á netfangið ub@barn.is.

Virðingarfyllst,
________________________
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna

 

Hér er bréf umboðsmanns til tryggingafélaganna:

 

Tryggingarfélag X

Reykjavík, 23. nóvember 2012
UB: 1211/10.2

Efni: Greiðsla tryggingabóta til barna

Í september þessa árs sendi umboðsmaður barna bréf til sex tryggingafélaga á Íslandi til að kanna hvernig staðið er að greiðslu tryggingabóta sem börn eiga rétt á. Ástæða bréfsins var erindi sem umboðsmanni barst þar sem foreldri fékk greiddar tryggingabætur f.h. barns og fór illa með þá fjármuni þannig að bæturnar skiluðu sér ekki til barnsins. Svör bárust frá öllum tryggingafélögum sem fengu bréf umboðsmanns barna og þakkar hann fyrir svörin.

Í kjölfar athugunar á svörum tryggingafélaganna telur umboðsmaður barna mikilvægt að vekja athygli á nokkrum atriðum. Umboðsmaður leggur áherslu á að tryggingafélög hafi í huga að þegar barn verður fyrir tjóni og fær greiddar tryggingabætur að bæturnar tilheyra barninu sjálfu. Í svörum tryggingafélaganna kom fram að barn fær einungis í örfáum tilfellum vitneskju um að það hafi fengið greiddar bætur og ræðst það m.a. af aldri barns og eðli bóta. Vissulega hvílir ábyrgð á foreldrum og lögmanni þegar við á að upplýsa börn um bætur sem tilheyra þeim þegar þau hafa náð ákveðnum aldri og þroska. Hins vegar telur umboðsmaður barna eðlilegt að tryggingafélög upplýsi einnig börn sem fá greiddar tryggingabætur. Auk þess er mikilvægt að foreldrum sé gerð grein fyrir því að það er á ábyrgð þeirra að varðveita tryggingabæturnar og nota þær í þágu barnsins sem í hlut á.

Í svörum tryggingafélaganna kom einnig fram að mismunandi er hvort greitt er inn á reikning í nafni foreldra, barna eða á fjárvörslureikning lögmanns sem greiðir síðan bætur til barns eða foreldris. Í flestum tilfellum var hjúskaparstaða foreldra ekki könnuð eða skipti ekki máli þegar kom að greiðslu tryggingabóta. Í sumum tilfellum kom fram að það fari eftir því hjá hvoru foreldri barn eigi lögheimili. Umboðsmaður barna telur að varðveita beri fjármuni á reikning í nafni barns. Þannig er mögulegt að tryggja að foreldrar geti ekki ráðstafað tryggingabótunum nema í þágu barnsins og með samþykki þess eða yfirlögráðanda.

Umboðsmaður barna fagnar því að tryggingafélögin virði kröfur 73. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 um tilkynningu til yfirlögráðanda þegar fjárhæð bóta nær 500.000 kr. í þeim tilfellum þegar við á.

Ef nánari upplýsinga er óskað er velkomið að hafa samband í síma 552 8999.

Virðingarfyllst,
_________________________
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica