8. nóvember 2018

Fundur um atvinnuþátttöku barna

Í dag var haldin fundur um atvinnuþátttöku barna á vegum umboðsmanns barna og Vinnueftirlitsins,

Í dag var haldin fundur um atvinnuþátttöku barna á vegum umboðsmanns barna og Vinnueftirlitsins, Ásmundur Einar Daðason setti fundinn og kom meðal annars inn á áhyggjur Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna sem snúa að því að börn byrja yfirleitt mjög snemma á vinnumarkaðnum á Íslandi eða í 13 – 14 ára aldur. Þá minntist hann á að fyrirkomulag vinnunnar væri oft óheppilegt og vinnutími barna langur. Há tíðni vinnuslysa og áreitni séu afleiðing þess að börn séu að axla of mikla ábyrgð á vinnumarkaðnum.

Arndís Vilhjálmsdóttir sérfræðingur hjá Hagstofunni fjallaði um aðlögun barna á íslenskum vinnumarkaði. Í erindi hennar kom meðal annars fram að hlutfall starfandi 17 ára barna yfir sumartímann hærra en þeirra sem eldri eru og yngri.

Þórunn Sveinsdóttir, deildarstjóri hjá Vinnueftirlitinu kallaði erindið sitt „að byrgja brunninn áður en barnið dettur í hann - Hvernig tryggjum við öryggi og heilsu barna við vinnu?“ Þar fór hún vel yfir hvaða reglur gilda um vinnu barna. Hún kom inn á þær skyldur atvinnurekenda við gerð sérstaks áhættumats vegna vinnu ungmenna og við hvað skal taka sérstaklega tillit til við gerð þess. Þá greindi hún sérstaklega frá að vinna 13 ára barna, með nokkrum undanþágum, væri bönnuð og að afla þyrfti leyfis hjá Vinnueftirlitinu áður en til ráðningar kemur.

 

Graffitiveggur

Mynd: Yadid Levy / Norden.org

Kristinn Tómasson, yfirlæknir Vinnueftirlitsins fræddi fundargesti um vinnuslys á börnum og ungmennum. Í erindi hans kom meðal annars í ljós að skráð vinnuslys barna yngri en 18 ára á árunum 2016 – 2018 væri 198 og á árunum 2011 – 2015 voru skráð slys barna 407. Í frásögn hans kom í ljós að vinnuslys barna eru hluti af íslenskum raunveruleika sem þarf að vera forgangsmál í vinnuverndarstarfi. Börn eiga að njóta hámarks öryggi en þó þurfa þau að halda áfram að fá tækifæri til að kynnast atvinnulífi í gegnum leik, nám og starf.

Eðvald Einar Stefánsson, sérfræðingur hjá umboðsmanni barna fór yfir úttekt sem embættið stóð fyrir umgjörð vinnuskóla sveitarfélaganna. Í máli hans kom í ljós að framkvæmd áhættumats er víða ábótavant hjá sveitarfélögunum. Laun og vinnutími eru mismunandi eftir sveitarfélögum og mörg sveitarfélög skilgreina þátttöku í vinnuskóla sem frístund eða tómstundastarf. Þá kom einnig í ljós að ekki er leitað samráðs hjá ungmennum varðandi starfsemi eða starfsumhverfi.

Vigdís Sóley Vignisdóttir og Kristján Helgason, fulltrúar í Ráðgjafarhóp umboðsmanns barna fóru yfir sína reynslu á vinnumarkaðnum og vinnuskólanum. Þau fóru yfir nauðsyn og kölluðu eftir betri fræðslu fyrir ungmenni um vinnumarkaðinn. Vegna lítillar þekkingar sinnar á vinnumarkaði sögðu þau dæmi um að börn og ungmenni væru opin fyrir misnotuð á vinnumarkaðnum meðal annars til að taka of langar vaktir, taka engar pásur eða vinna við óviðunandi aðstæður. Þá kom fram að börn vita yfirleitt ekki hvert á að leita til að ná fram sínum réttindum. Slíkt er hætt að breyta með betri fræðslu. Unglingar fá þó góð tækifæri á vinnumarkaðnum en góð fræðsla er nauðsynleg.

Að lokum fór fram pallborð þar sem þátttakendur voru þau Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Halla Margrét Tryggvadóttir, sviðsstjóri Stjórnsýslusviðs Akureyrarbæjar sem fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. Brugðust þau við erindum fundarins og fræddi Ragnar Þór fundargesti meðal annars um „Skóla lífsins“ sem er fræðsla sem VR hefur farið með í nokkra skóla landsins. Vinna getur vissulega verið jákvæð og góð reynsla en þó lýstu fundarmenn nokkrum áhyggjum af of mikilli vinnu barna og þeirri ábyrgð sem börn bera. Þá tóku þau undir að bæta þurfi fræðslu bæði til barna og ungmenna og til þeirra sem verkstýra börnum.

Fundurinn var vel sóttur og góðar umræður sköpuðust í lokin. Myndir frá fundinum verða birtar á Facebook síðu umboðsmanns barna.

Hægt er að horfa á fundinn í heild sinni hér. 

 

Fjölmiðlaumfjöllun um fundinn: 

Allt að þúsund króna munur á tímakaupi í vinnuskóla sveitarfélaganna - Stöð 2 og Vísir 8. nóvember 2018.

Fleiri börn í launaðri vinnu - RÚV 8. nóvember 2018.

410 börn og ung­menni slösuðust á vinnu­markaði 2016 - Morgunblaðið 9. nóvember 2018.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica