Fundur ENYA í Króatíu
Fulltrúar umboðsmanns barna á fundi ENYA í ár voru Magnþóra Rós og Sigtryggur Máni en þau eru bæði í ráðgjafarhópi umboðsmanns barna
Fundur ENYA (European Network of Young Advisors) fór fram í Króatíu dagana 1. - 2. júlí þar sem ungmenni frá ýmsum löndum á vegum evrópusamtaka umboðsmanns barna fjölluðu um líkamlega heilsu barna og ungmenna. Magnþóra Rós Guðmundsdóttir og Sigtryggur Máni Guðmundsson fóru á fundinn sem fulltrúar embættisins og stóðu sig virkilega vel.
Á fundinum kynntu Magnþóra og Sigtryggur fimm ráðleggingar um líkamlega heilsu barna og ungmenna frá umboðsmanni barna á Íslandi. Tillögurnar voru unnar af ráðgjafarhópi umboðsmanns barna, en í byrjun maí fór fram vinnufundur á skrifstofu embættisins þar sem ráðgjafarhópurinn ræddi um líkamlega heilsu barna og ungmenna. Sama vinna fór fram í öðrum löndum sem tóku þátt í verkefninu.
Á fundinum tóku ungmennin þátt í vinnustofum um líkamlega heilsu barna og ungmenna og fengu að heyra tillögur hinna landanna í málaflokknum. Þá voru allar tillögurnar ræddar í hópnum á ráðstefnunni og að lokum voru samþykktar lokatillögur hópsins alls. Ráðstefnan var mjög lærdómsrík og áhugaverð fyrir alla þátttakendur.
Flottir fulltrúar frá umboðsmanni barna
Magnþóra Rós og Sigtryggur Máni kynna tillögur Íslands um líkamlega heilsu barna og ungmenna
Í skoðunarferð í Zagreb eftir fyrsta dag fundarins