28. apríl 2010

Frumvarp um breytingu á áfengislögum, nr. 75/1998, með síðari breytingum, 293. mál.

Allsherjarnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til áfengislaga (auglýsingar), 293. mál. Umsögn sína veitt umboðsmaður barna í bréfi dags. 28. apríl 2010.

Allsherjarnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til áfengislaga (auglýsingar), 293. mál. Umsögn sína veitt umboðsmaður barna í bréfi dags. 28. apríl 2010.

Skoða frumvarp til áfengislaga (auglýsingar), þskj. 339, 293. mál.
Skoða feril málsins.

Umsögn umboðsmanns barna

Nefndasvið Alþingis
Allsherjarnefnd
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík


Reykjavík, 28. apríl 2010

Efni: Frumvarp um breytingu á áfengislögum, nr. 75/1998, með síðari breytingum, 293. mál.

Vísað er til tölvupósts frá nefndasviði Alþingis, dags. 26. apríl sl., þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um ofangreint frumvarp.

Í frumvarpinu er lagt til að 3. mgr. 20. gr. áfengislaga verði breytt, þannig að óheimilt verði að auglýsa vörur sem hægt er að rugla saman við áfengi, vegna nafns, umbúða eða annarra einkenna.

Umboðsmaður barna hefur undanfarin ár vakið athygli nauðsyn þess að takmarka dulbúnar áfengisauglýsingar með virkari hætti. Bann við áfengisauglýsingum hefur forvarnagildi og er ætlað að draga úr áfengisneyslu. Auglýsingar almennt hafa þann tilgang að hvetja til neyslu og stuðla að jákvæðu viðhorfi til vörunnar. Börn og unglingar eru sérstaklega viðkvæm fyrir allri markaðssetningu og hafa auglýsingar því almennt meiri áhrif á þann hóp en aðra. Í samræmi við það benda rannsóknir til þess að áfengisauglýsingar geti haft áhrif á viðhorf barna til áfengis og stuðlað að aukinni neyslu unglinga. Það er því ljóst að það er börnum fyrir bestu að koma í veg fyrir slíkar auglýsingar.

Fyrr á þessu ári sendi umboðsmaður fjármálaráðuneytinu bréf þar sem hann gerði athugasemdir við ákveðnar tillögur í skýrslu starfshóps um heildarendurskoðun á áfengislöggjöfinni. Í þeirri skýrslu kom meðal annars fram sú hugmynd að heimila áfengisauglýsingar að einhverju leyti, vegna þess hversu erfitt er að koma í veg fyrir þær. Umboðsmaður gagnrýndi þessa tillögu, enda er að hans mati vel hægt að tryggja að banni við auglýsingu áfengis verði framfylgt betur en gert hefur verið. Ein leið til þess er að banna auglýsingar á drykkjum sem bera sama heiti eða eru í eins umbúðum og áfengir drykkir, eins og gert er ráð fyrir í ofangreindu frumvarpi. Umboðsmaður barna fagnar því umræddri breytingartillögu og vonar að hún verði að lögum.

Virðingarfyllst,

________________________________________
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica