22. mars 2011

Frumvarp til umferðarlaga (heildarlög), 495. mál.

Samgöngunefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til umferðarlaga (heildarlög), 495. mál.. Umsögn sína veitt umboðsmaður barna í bréfi dags. 22. marsr 2011.

Samgöngunefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til umferðarlaga (heildarlög), 495. mál.. Umsögn sína veitt umboðsmaður barna í bréfi dags. 22. marsr 2011.

Skoða frumvarp til umferðarlaga (heildarlög), 495. mál.
Skoða feril málsins.

Umsögn umboðsmanns barna

Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík


Reykjavík, 22. mars 2011

Efni: Frumvarp til umferðarlaga (heildarlög), 495. mál.

Vísað er til tölvupósts frá nefndasviði Alþingis, dags. 10. mars sl., þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um ofangreint frumvarp. Umboðsmaður barna vill byrja á því að lýsa ánægju sinni með frumvarpið. Umboðsmaður barna fagnar sérstaklega því að verið sé að auka öryggi í umferðinni og þannig tryggja aukna vernd barna. Endurskoðun umferðarlaga er ekki síst mikilvæg í ljósi þess að umferðin hefur breyst mikið síðustu áratugi og er nauðsynlegt að löggjöfin taki mið af því. Umboðsmaður barna vill þó koma eftirfarandi ábendingum á framfæri. 

Umboðsmaður barna fagnar þeirri nýjung að gjöld vegna stöðubrota skv. 110. gr. frumvarpsins renni til umferðaröryggismála. Slíkt ætti að stuðla enn frekar að auknu umferðaröryggi fyrir börn á Íslandi.

Í 40. gr. frumvarpsins kemur fram að Umferðarstofa geti veitt leyfi til að víkja frá ákvæðum um lágmarksaldur ökumanna við æfingar og keppni á lokuðum eða afmörkuðum svæðum utan vega.  Umboðsmanni barna hafa borist ábendingar þess efnis að börn allt frá 6 ára aldri geti fengið leyfi til að aka um á kraftmiklum ökutækjum, en slíkt getur stefnt öryggi þeirra í hættu. Umboðsmaður barna telur æskilegt að setja ákveðinn lágmarksaldur inn í ákvæðið, þar sem ekki er eðlilegt að svo ung börn geti stjórnað slíkum tækjum.

Umboðsmaður barna fagnar nýju ákvæði í 5. mgr. 43. gr. frumvarpsins sem kveður á um 150 sm lágmarkshæð barna sem farþega á bifhjóli. Í skýrslu rannsóknarnefndar umferðarslysa 2008 kom fram að bifhjólaslysum hefur fjölgað undanfarin ár. Ökumenn og farþegar bifhjóla eru í talsvert meiri hættu í umferðinni en ökumenn og farþegar bifreiða. Lítið þarf útaf að bregða svo ökumenn bifhjóla missi jafnvægi og detti og þá er hættan á áverkum talsverð. Umboðsmaður barna telur því að auk þess að tiltaka 150 sm lágmarkshæð væri einnig æskilegt að kveða á um ákveðinn lágmarksaldur barna sem farþega á bifhjóli. Þannig væri umferðaröryggi barna aukið enn frekar.

Í 1. mgr. 76. gr. frumvarpsins er að finna sambærilega reglu og í 2. mgr. 72. gr. núgildandi laga, sem kveður á um að barn yngra en 15 ára skuli nota hlífðarhjálm við hjólreiðar. Í athugasemdum við frumvarpið er fjallað um að heimilt sé að setja í reglugerð ákvæði um notkun hlífðarhjálms fyrir þá sem eldri eru, að höfðu samráði við sérfræðinga. Af samtölum umboðsmanns við hina ýmsu sérfræðinga er ljóst að hlífðarhjálmur getur í mörgum tilvikum skipt sköpum fyrir öryggi hjólreiðarmanna, ekki síst þeirra sem yngri eru. Fjölmörg slys hafa orðið þar sem hlíðarhjálmur hefur bjargað lífi einstaklinga. Telur umboðsmaður barna því æskilegt að tryggja vernd barna á öllum aldri og kveða á um skyldu allra undir 18 ára aldri til þess að nota hlífðarhjálm.

Með 55. gr. frumvarpsins er lögð til sú grundvallarbreyting á núgildandi lögum að miða við að einstaklingur þurfi að vera orðinn 18 ára til þess að veita megi honum ökuskírteini. Fjölmörg rök mæla með þeirri breytingu. Eins og bent er á í almennum athugasemdum með frumvarpinu verða einstaklingar ekki lögráða fyrr en við 18 ára aldur og teljast enn börn í lagalegum skilningi. Mikil ábyrgð fylgir ökuréttindum og spurning hvort eðlilegt sé að börn beri slíka ábyrgð. Sömuleiðis benda rannsóknir til þess að umrædd breyting muni draga úr alvarlegum umferðarslysum. Telur umboðsmaður barna breytinguna því almennt vera til góðs. Umboðsmaður barna vill þó vekja athygli á því að breytingin geti verið verulega íþyngjandi fyrir fjölmörg ungmenni, ekki síst á landsbyggðinni þar sem almenningssamgöngur eru takmarkaðar. Vill umboðsmaður barna því beina þeim tilmælum til stjórnvalda að tryggja betri almenningssamgöngur, þannig að breytingin takmarki ekki atvinnutækifæri og menntunarmöguleika ungmenna. Einnig vill umboðsmaður barna benda á þann möguleika að ungmenni geti fengið að hefja æfingarakstur allt að tveimur árum áður en þau eiga rétt til þess á að fá útgefið ökuskírteini. Slíkt myndi auka reynslu ungmenna af akstri bifreiða og þar með stuðla að auknu umferðaröryggi. Auk þess getur lengri æfingatími gefið foreldrum tækifæri til að veita börnum sínum aukna leiðsögn í umferðinni og um leið fjölgað ánægjulegum samverustundum foreldra og barna.

Samkvæmt 36. gr. frumvarpsins stendur til að hraðamörk á vegum megi vera allt að 110 km á klukkustund. Umboðsmaður barna telur varhugavert að hraðamörk verði hækkuð með þessum hætti vegna þess að auknar líkur eru á því að farið verði að líta á þau hraðamörk sem meginviðmið og að umferðarhraðinn á þjóðvegum muni aukast. Slíkt mun að öllum líkindum draga úr þeim mikla árangri sem hefur náðst í fækkun umferðarslysa á undanförnum árum og bitna með beinum hætti á börnum.


Virðingarfyllst, 

Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica