8. nóvember 2018

Frumvarp til laga um útlendinga og Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi (ýmsar breytingar), 221. mál

 Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um útlendinga og Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi (ýmsar breytingar), 221. mál. Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 8. nóvember 2018.

 

Skoða frumvarpið. 
Skoða feril málsins.

 

Umsögn umboðsmanns barna

 

Reykjavík, 8. nóvember 2018

Efni: Frumvarp til laga um útlendinga og Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi (ýmsar breytingar), 221. mál.

Vísað er í tölvupóst frá nefndasviði Alþingis, dags. 25. október sl., þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um framangreint frumvarp.

Umboðsmaður barna hefur áður sent inn umsögn um málið og vísar til fyrri umsagnar sem finna má hér að neðan en frumvarp sama efnis var áður flutt á 148. löggjafarþingi (564. mál) en náði ekki fram að ganga og er lagt fram að nýju lítillega breytt.

 

 

Virðingarfyllst,

Salvör Nordal,

umboðsmaður barna

 

 

 

 

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis

Reykjavík, 6. júní 2018

Efni: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga og lögum um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi (ýmsar breytingar), 564. mál.

Vísað er í tölvupóst frá nefndasviði Alþingis, dags. 29. maí sl., þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um framangreint frumvarp.

 

Umboðsmaður barna telur breytingartillögu 2. gr. frumvarpsins mikilvæga þar sem barnaverndaryfirvöldum hefur verið bætt við þær stofnanir sem hafa heimild til að miðla á milli sín viðkvæmum persónuupplýsingum. Umboðsmaður telur það vera í samræmi við bestu hagsmuni barnsins að heimildir stjórnvalda til vinnslu persónuupplýsinga og samkeyrslu séu útvíkkaðar þannig að unnt sé að fá raunhæfa mynd af aðstæðum viðkomandi barns. Nú er komin ákveðin reynsla á beitingu núgildandi útlendingalaga og hafa þó nokkrir aðilar vakið athygli umboðsmanns á því að heimild til að miðla persónuupplýsingum á milli barnaverndaryfirvalda og þeirra aðila sem taldir eru upp í 1. mgr. 17. gr. útlendingalaga væri til mikilla hagsbóta þar sem barnaverndarnefndir búa  iðulega yfir upplýsingum um hagi barns sem geta skipt sköpum varðandi ákvörðun Útlendingastofnunar um veitingu dvalarleyfis og alþjóðlegrar verndar eða við framkvæmd flutnings úr landi.

 

Að lokum vill umboðsmaður taka undir þau sjónarmið sem fram koma í umsögn Barnaverndarstofu, að um er að ræða undantekningu frá meginreglu barnaverndarlaga um trúnað og því mikilvægt að farið verði yfir með hvaða hætti beiðni um upplýsingar þurfi að vera til þess að hægt sé að bregðast við henni og hvers eðlis umræddar upplýsingar þurfi að vera.

 

 

Virðingarfyllst,

Salvör Nordal,

umboðsmaður barna

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica