26. mars 2015

Frumvarp til laga um úrskurðarnefnd velferðarmála, 207. mál.

Velferðarnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um breytingatillögu, með tilliti til barnaverndar, á frumvarpi til laga um úrskurðarnefnd velferðarmála sem er til umræðu hjá Velferðarnefnd. Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 26. mars 2015.

Velferðarnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um breytingatillögu, með tilliti til barnaverndar, á  frumvarpi til laga um úrskurðarnefnd velferðarmála sem er til umræðu hjá Velferðarnefnd. Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 26. mars 2015.

Skoða frumvarp til laga um úrskurðarnefnd velferðarmála, 207. mál.
Skoða feril málsins.

Umsögn umboðsmanns barna

 

Velferðarnefnd

Reykjavík, 26. mars 2015
UB: 1503/4.1.1

Efni: Frumvarp til laga um úrskurðarnefnd velferðarmála, 207. mál.

Vísað er í tölvupóst frá nefndasviði Alþingis, dags. 19. mars 2015, þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um breytingartillögu á frumvarpi til laga um úrskurðarnefnd velferðarmála sem er til umræðu hjá Velferðarnefnd, með tilliti til barnaverndar.

Umboðsmaður barna fagnar viðleitni nefndarinnar við að vanda umgjörð barnaverndarmála hjá fyrirhugaðri úrskurðarnefnd velferðarmála þannig að sérþekking á barnaverndarmálum verði betur tryggð hjá úrskurðarnefndinni.

Þó að í frumvarpinu og breytingartillögunum sé margt gott er umboðsmaður barna þó ekki sannfærður um að þessi breyting á kærunefnd barnaverndarmála sé börnum til hagsbóta. Löggjafinn ber þá skyldu samkvæmt 3. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013, að þegar ákvarðanir sem hafa áhrif á börn eru teknar skuli það sem er börnum fyrir bestu sett í forgang. Þegar ráðstafanir eru gerðar í hagræðingarskyni er hætt við því að sjónarmiðið um hvað sé börnum fyrir bestu víki fyrir öðrum sjónarmiðum. Það er ekki í samræmi við Barnasáttmálann og skyldur ríkisins samkvæmt honum.

Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur talið að ofangreind 3. gr. Barnasáttmálans leggi jafnframt þá skyldu á yfirvöld að meta það sérstaklega hvaða áhrif fyrirhugaðar ákvarðanir munu hafa á börn (e. child-impact assessment). Umboðsmaður barna telur mikilvægt að vanda slíkt mat sérstaklega þar sem barnaverndarmál hafa mjög mikla sérstöðu í kerfinu. Ákvarðanir í barnaverndarmálum reynast oft mjög afdrifaríkar fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Viðkomandi börn eru yfirleitt í mjög viðkvæmri stöðu og það þarf að huga að þörfum þeirra og hagsmunum út frá ýmsum fagsviðum. Þetta kallar á mikla sérhæfingu þeirra sem starfa við ákvarðanatöku og úrskurði. Jafnvel þó að breytingartillagan verði samþykkt mun draga verulega úr sérþekkingu á sviði barnaverndar hjá æðra stjórnvaldi þar sem einn nefndarmaður í úrskurðarnefnd velferðarmála á að hafa sérþekkingu á sviðinu í stað allra nefndarmanna í kærunefnd barnaverndarmála auk starfsmanns hennar.

Þrátt fyrir viðleitni sem fram kemur í breytingartillögunni getur umboðsmaður barna ekki séð betur en að þegar litið er heildstætt á málið sé í rauninni verið að taka skref afturábak fyrir barnavernd í landinu.

Umboðsmaður barna hafði því miður ekki tök á því að senda umsögn um frumvarpið í haust en tekur undir þau sjónarmið sem fram koma í umsögn Barnaverndarstofu frá 6. nóvember 2014 og viðbótarumsögn Barnaverndarstofu frá 26. mars 2015.

Virðingarfyllst,

Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica