15. janúar 2018

Frumvarp til laga um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir, 26. mál

Velferðarnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir, 26. mál. Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 15. janúar 2018.

Velferðarnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir, 26. mál. Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 15. janúar 2018.

Skoða frumvarpið. 
Skoða feril málsins.

 

Umsögn umboðsmanns barna

 

Reykjavík, 15. janúar 2018

 

Efni: Frumvarp til laga um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir, 26. mál.

Vísað er í tölvupóst frá nefndasviði Alþingis, dags. 18. desember sl., þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um framangreint frumvarp.

Umboðsmaður barna vill byrja á því að lýsa yfir ánægju sinni með að verið sé að endurskoða löggjöf um málefni fatlaðs fólks hér á landi. Hann fagnar því einnig að tekið sé fram í 1. gr. frumvarpsins að þegar börn og fjölskyldur þeirra eigi í hlut skuli framfylgja Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013. Þá er ánægjulegt að sérstaklega sé fjallað um þjónustu við fötluð börn og fjölskyldur þeirra í IV. kafla frumvarpsins.

Umboðsmaður vísar til fyrri umsagnar um frumvarp til laga um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir, 438. mál. Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 12. maí 2017 til velferðarnefndar Alþingis. Eldri umsögn má sjá hér.

Umboðsmaður ítrekar þá sérstaklega áhyggjur sínar að tekið sé fram í athugasemdum við III. kafla að kaflinn eigi að meginstefnu við um fullorðið fólk en einungis um börn þegar það er sérstaklega tekið fram. Í III. kafla er aðeins sérstaklega minnst á börn í 8. gr. og því virðast 9. til 12. gr. ekki eiga að taka til barna. Það sé áhyggjuefni þar sem dæmi eru um að fötluð börn hafi fengið notendastýrða persónulega aðstoð, sbr. 11. gr. frumvarpsins. Hafa verður í huga að einstaklingar eru börn til 18 ára aldurs en í sumum tilfellum búa börn ekki hjá foreldrum sínum fram að 18 ára aldri, t.d. ef þau eru í framhaldsskólum fjarri heimili sínu. Þar getur notendastýrð persónuleg aðstoð skipt börn höfuðmáli. Ekki sé því rétt að mati umboðsmanns barna að takmarka þjónustu samkvæmt 9. til 12. gr. við fullorðna.

Einnig telur umboðsmaður ástæðu til að skýra orðalag 13. gr. frumvarpsins betur þannig að réttur fatlaðra barna til að láta skoðanir sínar í ljós í öllum málum er þau varða sé tryggður. Þannig ætti rétturinn til þess að láta skoðanir sínar í ljós ekki að vera háður aldri og þroska, heldur ættu öll börn að fá sama tækifæri til þess að tjá sig áður en ákvörðun sem varðar þau er tekin í samræmi við 12. gr. Barnasáttmálans. Eftir að barnið hefur tjáð skoðun sína ber að taka tillit til hennar í samræmi við aldur og þroska barnsins. Má í því sambandi minna á að tjáning fatlaðra barna þarf ekki að vera falin í orðum, heldur getur þurft að leita annarra leiða til að ná fram vilja barnanna.

 

 

Virðingarfyllst,

Salvör Nordal,

umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica